145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

sala bankanna.

[11:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir tækifærið til að ræða þessi stóru mál sem eru tengd eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum, annars vegar Landsbankanum, sem er kannski það sem við höfum meira verið að ræða, og hins vegar Íslandsbanka, sem er að koma í hendur ríkisins núna sem stöðugleikaframlag og er fyrir okkur tiltölulega nýleg staða og breytir umhverfinu töluvert mikið. Með því er ríkið orðið yfirgnæfandi stærsti eigandinn á fjármálamarkaði á Íslandi. Það hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar, eins og fram hefur komið í fjárlögum undanfarin ár, að selja þennan hlut í Landsbankanum, þ.e. hlut sem er 28,2%, þetta eru tæp 30% í bankanum. Ég tel að það sé ekki æskilegt til lengri tíma litið að ríkið eigi jafn stóran hlut í fjármálakerfinu og nú er uppi. Það er bæði óeðlilegt að ríkið eigi mikið undir áhættusamri starfsemi og að sama skapi skekkir það verulega samkeppni á fjármálamarkaði ef ríkið ber höfuð og herðar yfir aðra aðila.

Ég ætla að byrja á því að segja ég er í öllum meginatriðum algjörlega sammála því sem frummælandi leggur upp með, þ.e. að fjármálakerfið eigi ekki að uppistöðu til að vera í höndum ríkisins, það geti verið ákjósanlegt fyrir okkur að eiga umtalsverðan hlut, þó minni hluta í einum banka til lengri tíma, en að öðru leyti eigi bankarnir og fjármálakerfið að vera í höndum einkaaðila. Ég er líka sammála hv. þingmanni þegar hann segir að ágætt væri að fá erlent eignarhald að að minnsta kosti einum bankanum. Það er nokkuð sem okkur hefur aldrei tekist á Íslandi. Það hefur aldrei safnast upp nægilegur áhugi annars staðar á að eiga hlut í fjármálafyrirtæki á Íslandi, þótt við héldum á tímabili að það væri vottur að einhverjum slíkum áhuga virtist það vera úr lausu lofti gripið. Við höfum svo sem séð einhver merki um áhuga, t.d. við sölu fjármálafyrirtækja á sínum tíma, en það reyndust ekki vera þeir sem voru tilbúnir til þess að greiða hæsta verðið. Ég er því sammála öllum þeim megináherslum sem hv. þingmaður leggur upp með varðandi eignarhaldsstrúktúrinn til lengri tíma.

Þá er spurt: Hvað hastar að selja hlut ríkisins? Við berum mjög mikinn vaxtakostnað um þessar mundir. Það er ríkið sem er með hvað mestan vaxtakostnað allra Evrópuríkja. Við erum meira að segja með meiri vaxtakostnað en Grikkir vegna þess vaxtastigs sem við búum við, meiri vaxtakostnað hlutfallslega en Grikkir. Það ætti að segja okkur eitthvað um það hversu mikið við eigum undir því að koma eignum í verð og greiða upp skuldir. Það er enn ein ástæðan fyrir því, fyrir utan þær tvær sem ég nefndi áðan, að ríkið á ekki að vera of umsvifamikið, á ekki að bera höfuð og herðar yfir aðra, ekki vera um of í áhættusækinni starfsemi. Þetta er enn ein ástæða fyrir því að það eru góð rök með því að selja ríkiseignina Landsbankann.

Ég ætla að segja það jafnframt að mér finnst ekki hægt að halda því fram að við séum að flýta okkur eitthvað á árinu 2016 þegar við erum að huga að sölu á takmörkuðum hlut ríkisins í Landsbankanum. Það er — takið eftir — 2016. Við fengum bankann í fangið 2008. Við höfum átt hann 2009 og 10 og 11 og 12 og 13 og 14 og 15. Nú er 2016 og við erum að tala um að selja ekki einu sinni 30% hlut. Það er mat Bankasýslunnar, sem hefur það lögboðna hlutverk, að nú séu að skapast aðstæður til að hrinda þeim áformum sem við höfum lengi haft í framkvæmd. Í stöðuskýrslu sem Bankasýsla ríkisins birti 8. janúar sl. er að finna fjögur viðmið sem stofnunin hefur sett um það hvenær sé rétt að hefja söluferli á jafn stórum eignarhlut og þeim sem ríkið fer með í Landsbankanum. Viðmiðin eru að íslenskt efnahagslíf hafi styrkst og náð stöðugleika, að virðismat á fjármálafyrirtækjum sé ásættanlegt, að fjárfestar hafi áhuga og bolmagn á fjárfestingu í eignarhlut og að rekstur, afkoma, fjárhagsskipan og stjórnarhættir bendi til þess að fyrirtækið geti talist álitlegur fjárfestingarkostur. Það er í stuttu máli niðurstaða Bankasýslunnar að þau skilyrði séu öll uppfyllt og því er rétt að hefja sölumeðferð á Landsbankanum að mínu áliti.

Við getum síðan ekkert ráðið því hvernig markaðsaðstæður skipast á þessu ári eða því næsta, en mér finnst einsýnt að við eigum að halda þessum áformum áfram og fylgja þeim eftir. Hvað varðar lagarammann fyrir fjármálafyrirtæki er ég að renna út á tíma en vil vekja athygli manna á þeim gríðarlega miklu breytingum sem við erum þegar búin að leiða í lög og erum með (Forseti hringir.) á prjónunum að leiða í lög, sem gjörbreyta öllum tækifærum (Forseti hringir.) og möguleikum fjármálafyrirtækja til áhættusækinnar starfsemi. Ég bendi á þó ekki væri nema (Forseti hringir.) eiginfjárkröfurnar sem eru svo miklu meiri og hærri en áður var.