145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Í áramótaávarpi sínu tíundaði hæstv. forsætisráðherra hvað hefði áunnist á síðasta ári og raunar þá 30 mánuði sem hann hefur verið hæstráðandi til sjós og lands. Það má taka undir það með forsætisráðherra að hér á landi hafi hagsæld og kaupmáttur aukist á síðustu 30 mánuðum. Annað hefði verið ansi merkilegt í ljósi hagfelldra aðstæðna og þess að ríkisstjórnin tók við hallalausum ríkissjóði. (Gripið fram í.) Það er ekki einu sinni víst að enn verri ríkisstjórn hefði getað klúðrað því. En þó skal hér ósagt látið hvort er yfirleitt hægt að hugsa sér svoleiðis ríkisstjórn. Um það eru margir mjög efins.

Í áramótaávarpi sínu sagði forsætisráðherra að það sem helst gæti orðið okkur til trafala væri kæruleysi og neikvæðni og þá væri mikilvægt að sýna þolgæði og festu. Það má vissulega taka undir það með hæstv. forsætisráðherra að neikvæðni og kæruleysi eru alls ekki dyggðir. Það ber því að varast. En hverjir eru það sem helst eiga að sýna þolgæði, festu og jákvæðni? Mig langar að biðja hæstv. forsætisráðherra að svara því við tækifæri. Eru það kannski börnin 6 þúsund sem búa við efnislegan skort eins og fram kemur í nýrri skýrslu UNICEF? Eru það kannski eldri borgararnir, fleiri en 4 þúsund, sem búa við fátæktarmörk? Eða er það fatlað fólk og öryrkjar sem eru ekki nógu þolinmóðir fyrir forsætisráðherra? Er þetta fólk með óviðeigandi heimtufrekju og ónærgætni við hann og ríkisstjórn hans? Eða eru það kannski rúmlega 6 þús. sjúklingar sem bíða eftir aðgerðum sem forsætisráðherra finnst ekki sýna nægilega festu? Eða kannski þau hundruð barna og fullorðinna sem bíða greiningar vegna ADHD og annarra raskana?

Herra forseti. Ég get ekki svarað þessum spurningum, einungis hæstv. forsætisráðherra getur gert það. Ef fátæk börn, gamalt fólk, fatlað fólk og öryrkjar, sjúklingar á biðlistum, börn og aðstandendur þeirra sem bíða eftir greiningum og viðeigandi þjónustu sýna þolinmæði og festu, getum við kannski vonast til þess að forsætisráðherra veiti þeim einhver svör í næsta áramótaávarpi sínu? Hver veit.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna