145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

listamannalaun.

[16:42]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra fyrir að taka vinsamlega í beiðni mína um að taka sérstakar umræður um listamannalaun. Enginn sem þekkir mig efast um áhuga minn á menningu og hvers konar listum, ég er sjálfur virkur þátttakandi sem áhugamyndlistarmaður og hef staðið fyrir stórum sem smáum lista- og menningarviðburðum áratugum saman. Ber þar hæst listahátíðina í Garði, Ferska vinda. Það er kannski þess vegna sem ég hef miklar áhyggjur af því hvernig þróun á úthlutun listamannalauna hefur verið síðustu ár og hvernig listamennirnir sjálfir deila gæðunum sín á milli.

Listamannalaun eiga að mínu mati að tryggja stöðu íslenskrar tungu, tryggja nýliðun og skapa aðstöðu fyrir þá sem vinna sér veg og virðingu á listabrautinni og verða undirstaða í siðuðu þjóðfélagi. Listamannalaun hafa verið í mikilli umræðu síðustu daga og vikur. Það er eðlilegt að þjóðin ræði hvernig staðið er að úthlutun listamannalauna. Er til dæmis eðlilegt að stjórn Rithöfundasambandsins velji úthlutunarnefndina og síðan úthluti sú nefnd allri sitjandi stjórn Rithöfundasambandsins listamannalaunum til 12 mánaða? Þannig hefur það verið jafnvel árum saman. Er eitthvað eðlilegt við það? Er það að sama skapi eðlilegt að Listaháskólinn skipi fulltrúa í úthlutunarnefnd og að ár eftir ár séu kennarar skólans á listamannalaunum? Þetta fólk er allt gagnrýnið á samfélagið en sér það ekki siðleysið í eigin vinnubrögðum? Eigum við ekki að breyta því saman? Er ekki kominn tími til þess?

Ég er smeykur um að ef þingmenn störfuðu á sama hátt heyrðist hátt í sjálfskipuðum álitsgjöfum úr listaheiminum sem eðlilega hafa hátt í þjóðfélagsumræðunni um ýmis mál. Þeir hinir sömu verða því að þola þegar rætt er um þeirra mál sem eru í algjörum molum og ekki boðlegt hvernig rithöfundar og fagfélög þeirra skipa sjálf sitt fólk í úthlutunarnefndir sem síðan úthlutar listamannalaunum til þeirra sem skipuðu þá, jafnvel til margra ára. Dæmi hafa verið nefnd í umræðunni um rithöfund sem hefur þegið listamannalaun í níu ár en skilað litlu meira en einum bókartitli á þeim tíma. Þó hefur stjórnarformaður listamannalauna, Bryndís Loftsdóttir, lýst því yfir opinberlega að listamannalaun séu verkefnatengd laun sem nefndin þurfi að rökstyðja en ekki opinberlega. Er ekki rétt að umsóknir listamanna og afrakstur styrkja til þeirra verði gerður opinber svo ekki fari á milli mála fyrir hvað styrkurinn stendur? Þjóðin á rétt á því.

Stærsti launasjóður listamanna er launasjóður rithöfunda en hann úthlutar rúmlega 500 mánaðarlaunum. Annar stærsti sjóðurinn er launasjóður myndlistarmanna sem úthlutar rúmum 400 mánaðarlaunum. Heildarúthlutun launa er um 1660 mánuðir. Verktakalaunin nema um 351 þús. kr. á mánuði. Alls nemur úthlutun listamannalauna rúmum 500 millj. kr. á ári og eru þau aðeins lítið brot af því sem ríkisvaldið leggur til lista og listsköpunar í landinu á hverju ári.

Það er Alþingi Íslendinga sem úthlutar fé til listamannalauna og ber þannig fulla ábyrgð á úthlutun þeirra. Í mínum huga er það algjörlega óásættanlegt að Alþingi útvisti úthlutun listamannalauna til listamannanna sjálfra sem síðar, eins og dæmin sýna og sanna, beita klíkuskap og ógagnsæjum vinnubrögðum við að úthluta listamannalaunum hver til annars eins og enginn sé morgundagurinn. Í þessu skjóli dafna listamenn við lítil afköst, skila litlu en eru samt á launum árum saman, en auðvitað ekki allir, og það getur ekki verið hugsun laganna að slíkt sé látið viðgangast. Listamenn og samtök þeirra hafa með vinnubrögðum sínum fyrirgert rétti sínum til að þeim sé treystandi til að sjá um úthlutun launanna. Til eru listamenn sem halda því fram að hreinar pólitískar ástæður séu fyrir því að sömu listamönnum er haldið frá úthlutun listamannalauna árum og áratugum saman eins og dæmin sanna.

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér hvort ekki verði að breyta nú þegar þeim reglum sem gilda um úthlutun listamannalauna með því að færa valdið aftur til þeirra sem bera ábyrgð á fjármálum ríkisins, til Alþingis. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé rétt að tekjutengja úthlutun listamannalauna þannig að þeir listamenn sem búa við góða afkomu af list sinni fái annars konar viðurkenningar frá þjóðinni. Ég velti fyrir mér hvort við ættum að beina sjónum okkar í meira mæli til ungra og efnilegra listamanna sem ekki hafa sterkt fjárhagslegt bakland og eru nýkomnir í málið. Ég velti fyrir mér hvort tengja ætti listamannalaun meira við ákveðin verkefni og þar fram eftir götunum.

Er ekki kominn tími til að við veltum fyrir okkur markmiðunum með listamannalaunum, til hvers þau séu? Á ekki árangurinn að vera fyrir þjóðina?

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Ætlar ráðherrann að endurskoða úthlutunarreglur listamannalauna? Hvernig getur ráðherrann tryggt gagnsæi við úthlutun listamannalauna? Hvernig getum við lagt mat á það hvað rúmur hálfur milljarður í listamannalaun skili samfélaginu? Telur ráðherrann rétt (Forseti hringir.) að tekjutengja listamannalaun? Telur ráðherrann rétt að tengja greiðslur listamannalauna við framvindu verkefna listamannsins?

Og spurning sem kallar á stutt svar: Telur ráðherra rétt að hætta við úthlutun listamannalauna?