145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

höfundalög.

333. mál
[17:25]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Tilgangur þessa frumvarps er tvíþættur, annars vegar að færa ákvæði I. kafla gildandi höfundalaga, sem fjallar um réttindi höfunda o.fl., til samræmis við þróun höfundalaga í öðrum norrænum ríkjum, einkum með tilliti til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu, og hins vegar að lögfesta breytt fyrirkomulag á samningskvaðaleyfum.

Þegar við ræðum um samningskvöð er átt við það að ákveðið er með lögum að notendum verka sem varin eru af höfundarétti, sem hafa gert samning við höfundaréttarsamtök um notkun á verkum aðildarfélaga eða félagsmanna þeirra, t.d. með ljósritun, skuli einnig vera heimilt að nýta verk höfunda sem standa utan samtakanna, enda séu verkin sömu tegundar og verk sem samningurinn tekur til og notkunin að öðru leyti háð ákvæðum samningsins.

Við fengum til okkar marga góða gesti og það kom meðal annars fram í meðferð málsins í nefndinni að 1. gr. frumvarpsins fæli í sér takmarkanir á tjáningar- og upplýsingafrelsi. Nefndin vill í því sambandi taka fram að einkaréttindi höfunda eru talin upp í I. kafla laganna og í II. kafla laganna er fjallað um takmarkanir og undantekningar frá einkarétti höfunda í þágu ýmissa nota. Við teljum rétt að benda á 2. og 3. mgr. áðurnefndrar tilskipunar sem var innleidd í höfundalög á árinu 2006 en þar kemur fram tæmandi upptalning á öllum þeim undantekningum og takmörkunum sem gera má á einkarétti höfunda í aðildarríkjum EES-samningsins.

Við fengum upplýsingar um það í nefndinni að breytingar á undantekningum og takmörkunum á einkaréttindum höfunda hefðu verið til umræðu á vettvangi Evrópusamstarfs á sviði höfundaréttarmála og á vettvangi Alþjóðahugverkastofnunarinnar og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur þegar hafið endurskoðun á efni tilskipunarinnar. Það er auðvitað gert í ljósi þeirra hröðu breytinga sem átt hafa sér stað í upplýsinga- og samskiptatækni.

Við teljum mikilvægt að fylgjast vel með þessari umræðu. Við vísum einnig til þess að ráðgert er að fjallað verði nánar um undantekningar og takmarkanir á einkaréttindum höfunda við endurskoðun á II. kafla höfundalaga sem nú stendur yfir.

Ég tek fram að í dag er mælt fyrir þremur nefndarálitum um frumvörp um breytingar á höfundalögum þannig að ljóst er að mikið er um að vera varðandi breytingar á þessum ágætu lögum.

Við fengum til okkar góða gesti meðal annars frá Hljóðbókasafninu. Það eru reifuð ágætlega í nefndarálitinu svör við þeim athugasemdum sem bárust frá þeim. Við vísum meðal annars í það að í 1. mgr. 19. gr. laganna er almenn heimild. Fyrirmyndin að því ákvæði er fengin úr norskum og dönskum lögum og er það hugsað til afnota innan stofnana eins og skóla, heilbrigðisstofnana og dvalarheimila þar sem fatlað fólk á þess ekki kost að nýta sér heimild 1. mgr. 11. gr. höfundalaganna til að gera eintök af umræddu efni til einkanota. Við teljum í rauninni ekki ástæðu til að bregðast við þeim athugasemdum.

Við ræddum talsvert um þau sjónarmið í nefndinni að lögbannsheimild á þjónustu milliliða sem innleidd var árið 2010 hefði reynst rétthöfum torsótt í framkvæmd og þá var einkum verið að vísa til málsmeðferðar hjá sýslumannsembættinu í Reykjavík. Það er ljóst að ráðherra reifaði þessi sjónarmið þegar mælt var fyrir frumvarpinu við 1. umr. Við ræddum þetta nokkuð í nefndinni og veltum því fyrir okkur hvort tímabært væri að lögfesta beinan aðgang rétthafa að flýtimeðferð hjá héraðsdómi í slíkum málum en það er niðurstaða nefndarinnar að beina því til ráðuneytisins að taka þau mál til nánari skoðunar og meta hvort tilefni sé til að koma með heildstætt frumvarp um þetta efni fyrir haustþing 2016. Það er vegna þess að við teljum einfaldlega að málið sé þess eðlis að það þurfi viðameiri skoðunar við en nefndin getur sjálf gert að svo komnu máli.

Í heildina litið er það mat nefndarinnar að með ítarlegri ákvæðum um samningskvaðaleyfi sé réttarstaða þeirra sem kjósa ekki að vera meðlimir í höfundaréttarsamtökum mun skýrari en áður og aðgengi almennings að höfundaréttarvernduðum verkum verði aukið til muna og þess vegna sé frumvarpið til bóta. Við leggjum til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Þrír hv. þingmenn undirrita þetta álit með fyrirvara. Fyrirvari hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur lýtur að því að takmarka möguleika fatlaðs fólks að notkun hljóðbóka við stofnun með þeim hætti sem kveðið er á í lokamálsgrein 9. gr. frumvarpsins.

Ég sé að hv. þingmenn sem einnig skrifa undir álitið með fyrirvara, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, eru í salnum og geri ráð fyrir að þau geri grein fyrir fyrirvara sínum sjálf, enda mun betra að það komi beint frá þingmönnunum en frá þeirri sem hér stendur.

Undir þetta álit skrifar sú sem hér stendur og hv. þingmenn Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Willum Þór Þórsson, Vilhjálmur Árnason og Jóhanna María Sigmundsdóttir. Eins og áður sagði skrifa undir með fyrirvara hv. þingmenn Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.