145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Á dagskrá þingsins í dag eru átta svokölluð þingmannamál, mál sem eru flutt af þingmönnum, en yfirgnæfandi fjöldi frumvarpa sem flutt eru og samþykkt eru stjórnarfrumvörp. Sex þingmálanna sem talað verður fyrir í dag eru flutt af þingmönnum úr öllum flokkum; þingsályktunartillaga um sólarhringsmeðferð í öndunarvél á heimili sjúklinga, tillaga um áhættumat vegna ferðamennsku, tillaga um dag helgaðan fræðslu um mannréttindi barna, frumvarp um stytting vinnutíma, tillaga um aðgerðaáætlun gegn súrnun sjávar á norðurslóðum og tillaga um notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum.

Virðulegi forseti. Allt eru þetta mikilvæg mál og mikil samstaða um þau. Þess vegna finnst mér eðlilegt að spurt sé hvers vegna þau hafi ekki verið fyrr á dagskrá þingsins. Svarið við því er einfalt. Forseti þingsins hefur farið að kröfu ríkisstjórnarflokkanna um forgangsröðun í þinginu. Engin mál skyldu sett á dagskrá fyrr en forgangsmál Sjálfstæðisflokksins um brennivín í búðir væri komið til nefndar. Menn geta svo dæmt um mikilvægi þess máls í samanburði við þau mál sem ég hef lesið upp hér á undan.

Ræður þá Sjálfstæðisflokkurinn einn í þinginu? Nei, hinn ríkisstjórnarflokkurinn hafði líka sitt forgangsmál, það var að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun. Þar með voru miklir fjármunir fluttir frá sjálfstæðri og óumdeildri stofnun inn í utanríkisráðuneytið, enda hóf þróunarsamvinnuskrifstofa ráðuneytisins nýja starfsemi strax í upphafi árs og fór að veita styrki til kvikmyndagerðar. Um slíka styrkveitingu eru ekki til neinir verkferlar, en þar virðist skylda að vera sveitungi hæstv. ráðherrans.

Mér finnst þessi dæmi lýsandi fyrir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og bið aðra að dæma fyrir sig.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna