145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Niðurstaða EFTA-dómstólsins á dögunum um að íslensk stjórnvöld megi ekki setja reglur sem komi í veg fyrir innflutning á ófrosnu kjöti, vekja furðu og spurningar um hvort íslensk lög og stjórnarskrá séu ekki ofar EES-samningnum sem vísað er til í álitinu. Vilhjálmur Arason læknir varar mjög við hættunni sem stafar af innflutningi á hráu, fersku kjöti til landsins. Kjötið getur verið mengað af lyfjum og hættulegum efnum, auk hættunnar á bakteríum sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum. Hann segir að úrskurður EFTA gangi gegn lýðheilsusjónarmiðum og að sérstaða íslensks heilbrigðis í landbúnaði sé látin víkja fyrir tilskipun ESB. Það er mikið áhyggjuefni, einnig vegna hættu á smitsjúkdómum hjá búfé.

Réttur þjóðar til þess að standa vörð um lýðheilsu og heilbrigði búfjár hlýtur að vera mikill, en EFTA-dómstóllinn telur sig hafa stöðu til að leyfa óheftan innflutning á hráu ófrosnu kjöti sem gengur þvert á íslensk lög. EES-samningurinn hefur verið að víkka út. Ég tel að íslensk lög kveði skýrt á um að innflutningur á hráu, ófrosnu kjöti sé óheimill. Það getur ekki verið að EES-samningurinn gangi lengra en íslensk lög. Við verðum að standa vörð um lýðheilsu almennings og þá hættu sem vissulega er fyrir hendi, að hér komi upp miklir búfjársjúkdómar í kjölfarið ef þetta verður að veruleika.


Efnisorð er vísa í ræðuna