145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

embætti umboðsmanns aldraðra.

14. mál
[16:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vildi taka til máls og lýsa yfir miklum stuðningi við þessa tillögu. Mér finnst hún stórgóð. Ég held að það séu fleiri hópar í samfélaginu sem mundu njóta góðs af því ef sérstakt embætti umboðsmanns væri þeim til handa. Mér finnst alveg þess virði að minnast á það við þetta tækifæri að ég tel þessa hugmynd koma oft fram í samfélaginu vegna þess að það er einn umboðsmaður sem hefur staðið sig með stakri prýði og það er umboðsmaður Alþingis. Vinnan sem hefur komið frá því embætti hefur verið með þvílíkum sóma og margsinnis varpað ljósi á hluti sem betur mega fara, oft og tíðum hefur það í för með sér að þeim er breytt til hins betra. Það er vegna þess að umboðsmaður nýtur mikillar virðingar í samfélaginu öllu. Störf hans eru álitin skipta raunverulegu máli.

Þess vegna er afskaplega mikilvægt þegar sett er á fót slíkt embætti að embættið sjálft njóti trausts og stuðnings og virðingar þeirra sem þeim umboðsmanni er ætlað að aðstoða með réttarvernd sína. En ég held að svona embætti þurfi ekki endilega að vera stór til að vera gagnleg, sér í lagi fyrir viðkvæma hópa eins og aldraða, öryrkja, fanga og aðra hópa í samfélaginu sem er ákveðin tilhneiging til í samfélagi okkar, því miður er það allt of algengt, að líta á sem einhvers konar afgangsstærð. Ég held að ef þessi tillaga nái fram að ganga sé hægt að draga mjög mikið úr þeirri tilhneigingu í fyrsta lagi og í öðru lagi draga úr áhrifum þeirrar tilhneigingar. Mörg vandamál eru þannig að það þarf ekki nema að benda á þau og tala um þau til þess að eitthvað lagist, auðvitað ekki af sjálfu sér alfarið, fólk þarf að gera eitthvað til að laga hlutina, en það er mikið af vandamálum sem eru óleyst einfaldlega vegna þess að enginn talar um þau eða kemur ekki upplýsingum á framfæri á nógu skilvirkan hátt.

Það er auðvitað hárrétt sem hv. þm. Karl Garðarsson fór vel yfir í ræðu sinni að það hversu flókið kerfið er þegar kemur að öldruðum og öðrum viðkvæmum hópum veldur því að réttarvernd er afskaplega erfið. Sú mantra verður seint endurtekin of oft að mínu viti að þegar viðkvæmir hópar, sem oft og tíðum hafa ekki mikið milli handanna, lenda í því að á rétti þeirra er á einhvern hátt brotið verða þeir að hafa utanaðkomandi aðila til að aðstoða sig við að gera sér ljóst hver réttindi þeirra eru og hvernig eigi að bregðast við því þegar eitthvað fer úrskeiðis. Við getum alveg gefið okkur að hlutirnir fari úrskeiðis. Það er alveg sama hversu glæsilegar stofnanir við höfum, það verður alltaf fólk sem vinnur þar og það verður alltaf fólk sem vinnur samkvæmt lögum og reglugerðum sem við setjum hér eða þá hæstv. ríkisstjórn. Afleiðingarnar af því þegar mistök eiga sér stað bitna á þessum skjólstæðingum en ekki endilega á þeim sem setja reglurnar. Maður getur ímyndað sér muninn á því að finna sjálfur fyrir afleiðingum gjörða sinna og því að gera það ekki. Munurinn er gríðarlegur.

Mér finnst því afskaplega mikilvægt að á Íslandi almennt tileinkum við okkur hugarfar aðhalds og mótvægis. Við þurfum að hafa stofnanir sem veita hver annarri aðhald og mótvægi. Þetta er hugtak sem á ensku, með leyfi forseta, er kallað „checks and balances“ og er notað í bandarískri stjórnsýslu. Mér finnst að við eigum að tileinka okkur það hugarfar og slík vinnubrögð meira í framtíðinni. Við getum ekki treyst stofnunum af þeirri einföldu ástæðu að þær eru stofnanir. Í því felst enginn áfellisdómur heldur aðeins viðurkenning á því að stofnanir séu mannleg fyrirbæri og maðurinn er ekki óbrigðull. Það er líka vegna þess að stjórnsýslan er ekki lífvera og hefur ekki tilfinningar og finnur ekki endilega fyrir því þegar eitthvað bjátar á. Það getur komið alfarið niður á skjólstæðingum án þess að kerfið, eins og það er kallað, finni fyrir því. Þá er svo mikilvægt að til staðar sé embætti á borð við umboðsmann, sem ég tel mjög heppilega lausn, til þess að veita þá tilfinningu í formi gagnrýni eða upplýsingaleitar eða jafnvel einhvers konar ákvörðunarvalds.

Umboðsmaður Alþingis er áhugaverð stofnun að því leyti að umboðsmaður hefur í sjálfu sér ekki neitt dómsvald. Hann getur ekki skikkað stofnanir til þess að gera eitt eða neitt né breyta einu eða neinu. Það er alfarið vegna virðingar fyrir starfi hans og fyrir þeirri stofnun og sögu stofnunarinnar af afgreiðslu mála og metnaðar fyrir því að gera rétt sem niðurstöður umboðsmanns Alþingis hafa raunveruleg áhrif. Aftur kemur að því hversu mikilvægt það er að slík embætti njóti virðingar, séu almennilega fjármögnuð og hlutverkið skýrt o.s.frv., en aðallega að fólk, og sér í lagi skjólstæðingar embættisins, upplifi það sem svo að það skipti raunverulega máli sem kemur frá umboðsmanni. Það skiptir gríðarlegu máli. Ég held að ástæðan fyrir vinsældum umboðsmanns Alþingis sé að fólk upplifir sem það skipti máli þegar hann úrskurðar um eitthvað eða segir eitthvað eða skilar skýrslu sem segir eitthvað. Það hafi raunveruleg áhrif jafnvel þótt lögformlega hafi umboðsmaður Alþingis ekki neitt dómsvald.

Enn og aftur lýsi ég yfir stuðningi við þessa tillögu og verð að segja að það hafa komið fram tillögur svipaðs eðlis um aðra hópa og umboðsmaður flóttamanna verið nefndur, umboðsmaður innflytjenda, umboðsmaður fatlaðs fólks og fleira í þeim dúr. Ég vara við því einu að þetta sé álitin einhvers konar galdralausn. Það getur þurft meira en einfaldlega að setja á fót embætti umboðsmanns og telja þá að verkefninu sé lokið. Það þarf alltaf að fylgja því eftir og tryggja að tiltekið embætti nái raunverulegum árangri og hafi þau tæki og tól með lögum og fjármagni og aðstæðum til þess að sinna vinnu sinni þannig að niðurstöður stofnana skipti raunverulegu máli. Sömuleiðis er mikilvægt að umræddur umboðsmaður sé ótengdur þeim kerfum sem hann á að gagnrýna eða hafa einhvers konar eftirlit með. Með því er ekki átt við að hann eigi ekki að þekkja kerfin sem hann fjallar um heldur fyrst og fremst að þetta tvennt sé aðskilið. Umboðsmaður Alþingis er nefnilega ein af þeim stofnunum sem heyrir beint undir Alþingi, tilheyrir ekki ríkisstjórn sem dæmi. Það er afskaplega mikilvæg staða fyrir það embætti að mínu mati. Almennt tel ég að eftirlitsstofnanir eigi að tilheyra Alþingi. Það er í sjálfu sér ekki aðalatriði en ég vildi varpa því fram að í okkar litla landi skiptir miklu máli að við séum með aðskilnað stofnana mjög skýran og sem skynsamlegastan.

Fleira hef ég ekki að segja um þetta mál annað en að ég ítreka enn og aftur stuðning minn við það. Ég vona svo sannarlega að þetta góða mál fái fulla meðferð á Alþingi og vænti þess fastlega að Alþingi samþykki málið ef það nær til atkvæðagreiðslu eftir síðari umr.