145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum.

328. mál
[18:28]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna og þetta mjög svo áhugaverða mál. Það vill svo til að þeirri sem hér stendur er málið dálítið skylt þar sem hér fer umhverfisráðherra sá sem er títtnefndur í greinargerð málsins. Er allt satt og rétt sem hér er eftir haft varðandi aðkomu mína að málinu á sínum tíma. Ég tel að full ástæða sé til þess að málið komi fram með þeim hætti sem hér er gert til þess að dýpka umræðuna í þinginu og að ekki sé fullnægjandi þegar um er að ræða efasemdir um það hversu heilsusamlegt það sé að börnin séu ekki látin njóta vafans fortakslaust. Ég styð því grundvallarhugsun hv. þingmanns og þeirra flutningsmanna sem upp eru taldir að því er varðar þetta mál.

Mig langar að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi: Liggur alveg fyrir að nægilegar heimildir séu fyrir hendi hjá ráðherra til þess að gefa út bann við notkun á gúmmíkurli? Þarf lagastuðning eða er nægilegt að vísa í eða breyta með einhverjum hætti nefndri reglugerð 888/2015 í þessa veru?

Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þingmann af því að það er dálítið óljóst af orðalagi tillögunnar hvort um er að ræða að ráðherra eigi að leggja áætlunina fram fyrir árslok 2016 eða hvort framkvæmdinni eigi að vera lokið fyrir árið 2016.

Ég læt þetta duga í mínu fyrra andsvari og á eina spurningu til góða í mínu seinna andsvari.