145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

gjaldtaka af ferðamönnum.

[10:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum með það að ekki séu neinar fyrirætlanir uppi á borðum um gjaldtöku af ferðamönnum. Ég tel að það sé algerlega óviðunandi að greiða eigi það úr ríkissjóði eins og ástatt er, fjárvant víða í velferðarkerfinu og byrðar þungar víðs vegar í samfélaginu og mörg verkefni sem ríkissjóður þarf að taka á. Það er ekkert nema sjálfsagt að þeir ferðamenn sem hingað flykkjast taki þátt í þeim kostnaði sem er við innviðauppbygginguna og við að tryggja það að helstu perlur landsins séu þannig að boðlegt sé að koma þangað. Ég spyr ráðherrann hvort hún sé að boða það að fara eigi í frekari hækkun á neðra þrepi virðisaukaskattsins, hvort það hafi átt að skilja ræðu hennar sem svo.

Ég vil að síðustu hvetja ráðherrann til þess að beita sér fyrir því að gistináttagjaldið, sem er ákaflega lágt gjald sem ferðamenn greiða fyrir hótelgistingu, gjald sem þekkist um allan heim, verði einfaldlega hækkað og tekjurnar af því notaðar til þess að standa (Forseti hringir.) sómasamlega að móttöku erlendra ferðamanna á Íslandi án þess að það bitni á (Forseti hringir.) skattgreiðendum eða þjónustu í velferðarkerfinu.