145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

niðurstöður greiningar UNICEF á hag barna og viðbrögð stjórnvalda við þeim.

[12:07]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður. Það er ljóst að þetta svokallaða góðæri sem nú er byrjað skilar sér ekki til þeirra sem þurfa mesta á því að halda. Það er neyðarástand á leigumarkaði. Þó svo að húsnæðisfrumvörpin komist í gegn án mikilla breytinga mun það ekki leysa neyðarástandið. Það tekur tíma að byggja upp og lagfæra það sem er að. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvað eigi að gera í millitíðinni. Hvað á gera fyrir þau 13,4% barna Íslandi sem líða skort vegna húsnæðismála?

Í aðgengilegri samantekt og skýrslu frá UNICEF er sláandi að sjá að börn líði nú alvarlegri skort en áður þegar allt er tekið saman. Hugsið ykkur, það eru 3,2% barna á Íslandi sem líða næringarskort, sem fá ekki nógu mikið að borða. Ég vil ekki búa í svona samfélagi. Við eigum alveg fullt, fullt af peningum sem við getum deilt á jafnari hátt. Á einhvern veg hlýtur að vera hægt að finna leiðir til að taka á þessu brýna vandamáli.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún geti á mjög einfaldan hátt útskýrt fyrir okkur hvernig eigi að leysa það vandamál að börn líði núna alvarlegri skort á Íslandi en áður. Ég óska eftir mjög skýrum svörum um aðgerðir.