145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

niðurstöður greiningar UNICEF á hag barna og viðbrögð stjórnvalda við þeim.

[12:23]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir innlegg þeirra. Eins og fram hefur komið er mikill munur á börnum leigjenda og börnum foreldra í eigin húsnæði. Börn leigjenda eru líklegri til að líða skort á öllum sviðum og þess vegna er augljóst að við ættum að beina sjónum okkur að börnum sem búa í leiguhúsnæði. Ég tel að það hafi ekki verið gert nægilega vel, a.m.k. ekki enn sem komið er á þessu kjörtímabil. Leigjendur fengu til dæmis ekkert af 80 milljörðunum sem deilt var út til hluta landsmanna sem skulduðu verðtryggð lán í húsum sínum og húsaleigubætur hafa ekki hækkað á þessu kjörtímabili. UNICEF bendir á að þegar rýnt er í niðurstöðu skýrslunnar með tilliti til samfélagshópa kemur í ljós að staða barna sem eiga unga foreldra er erfið og það sama má segja um pör með eitt barn. Kanna þurfi hvað geri það að verkum að börn foreldra með eitt barn og foreldra sem eru yngri en 30 ára mælist talsvert líklegri til þess að líða skort en önnur börn.

Ég vil þakka UNICEF fyrir greininguna. Hún þarf að vera árleg og ég er ánægð með viðbrögð hæstv. ráðherra hvað það varðar.

Það er nauðsynlegt að stjórnvöld hafi slíkt tæki til þess að nota við stefnumörkun og til að endurskoða stefnu sína þar sem þörf er á. Lægstu tekjubilin njóta til að mynda ekki skattalækkana þessa árs og ég vona að stjórnvöld endurskoði slíkar áherslur í ljósi greiningar UNICEF. Greiningin sýnir að gefa þarf sérstaklega gaum stöðu barna tekjulágra foreldra í leiguhúsnæði. Við ættum öll að sameinast um að gera það hratt og vel.