145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:49]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta er mikið metnaðarleysi og fullkomið virðingarleysi fyrir aðstæðum fólks sem lendir í miklum erfiðleikum. Við sem setjum lög í þessu landi og höfum fjárveitingavald verðum líka að vera meðvituð um það að við erum í forréttindastöðu. Okkur ber skylda til að gæta hagsmuna allra, líka þeirra sem þurfa á tímabundinni framfærslu sveitarfélags síns að halda en eru ekki með fastar háar mánaðargreiðslur í laun eins og við njótum og þurfum ekki að hafa áhyggjur af því hvort við getum keypt föt á börnin okkar eða leyft þeim að taka þátt í handboltanámskeiðum. Engin tilraun er gerð til að greina þetta í frumvarpinu, engin tilraun.

Þegar málið var síðast til umræðu í velferðarnefnd óskuðum við eftir ítarlegum upplýsingum. Það hefur verið nefnt dálítið svona með mórölskum hætti í umræðunni að nú sé unga kynslóðin þannig að það sé hópur drengja sem elski það að hanga í tölvunni. Sveitarfélagið þurfi bara að koma með sinn fulltrúa og hrista þá dálítið til og gera þeim grein fyrir hvernig kaupin gerast á eyrinni. En hvað kom í ljós? Ungu fólki hefur ekki fjölgað hlutfallslega á fjárhagsaðstoð. Það er bara mýta. En það er auðvitað þannig að þegar harðnar á dalnum, þegar atvinnuleysi eykst, eins og gerðist hér í hruninu, þá fjölgar þeim sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda. Þar er ungt fólk í meiri mæli en þeir sem eldri eru, því að ungt fólk er með veikari stöðu á vinnumarkaði. Þetta er ekki greint í frumvarpinu enda byggir (Forseti hringir.) það á mórölskum kreddum.