145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:11]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka mjög góða spurningu. Ég ætla að taka undir það, lög um félagsþjónustu sveitarfélaga frá 1991 er einstaklega falleg löggjöf og hún er tímamótalöggjöf. Hún var sett í tíð þáverandi félagsmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og ber henni og hennar hugsjónum gott vitni, auk þess sem að henni kom fjöldi fólks og frábærir embættismenn. Margir þeirra eru enn í ráðuneytinu í dag. Ég efa ekki að þeir eru ekki hrifnir af þessum breytingum.

Varðandi spurninguna um hvort frumvarpið sé í andstöðu við markmið laganna þá er það góð ábending. Við munum inna sérstaklega eftir þessu. Ég er ekki með spurningarnar núna sem við úr minni hlutanum sendum en mig minnir að við höfum ekki spurt beint að þessari spurningu. Auðvitað kom fram í samtölum við ýmsa, bæði ráðuneyti, sveitarfélögin og ýmsa aðila, að þeim fannst löggjafinn vera að vinna gustukaverk með því að ýta ákveðnum einstaklingum lengra út á jaðar samfélagsins. Menn greinir á og það greinir á hvaða lífssýn við höfum. Ég velti því fyrir mér hvort þeir sem hafa hvað mesta trú á þessu séu svona eðlislatir að þeir ætli öllum að nenna engu nema það sé sparkað í þá. En hvað veit ég?

Þetta er hárrétt, þetta er í andstöðu við markmiðið og í raun má segja að þessar frumvarpsgreinar komi eins og skrattinn úr sauðarleggnum og séu algjörlega í andstöðu við anda laga um félagsþjónustu.