145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

ný aflaregla í loðnu.

[15:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í ár var loðnukvóta í fyrsta skipti úthlutað eftir nýrri aflareglu, eins og komið hefur fram. Alþjóðahafrannsóknaráðið hafði gert athugasemd við fyrri úthlutunarreglur. Gamla aflareglan tók ekki til neinnar óvissu, svo sem bergmálsmælinga, og niðurstöður bentu til að afföll vegna áts annarra fiskstofna á loðnu væru meiri en gamla aflareglan gerði ráð fyrir. Hún stóðst af þeim sökum ekki viðmið Alþjóðahafrannsóknaráðsins.

Það er rétt að gífurlegir hagsmunir liggja að baki og er mikilvægt hægt sé að treysta því að ný aflaregla sé byggð á sem bestum vísindalegum rannsóknum. Ekki er skynsamlegt að hlaupa frá þeirri aflareglu sem Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur skrifað upp á. Í dag má veiða um 177 þús. tonn af loðnu en með nýrri aflareglu koma um 100 þús. tonn í hlut okkar Íslendinga. Búið var að nota hina gömlu aflareglu í áratugi og ef miðað væri við hana gæfi hún um 230–250 þús. tonn af loðnu. En það sem stendur upp úr að mínu mati er að setja þarf miklu meiri fjármuni í hafrannsóknir þegar svo gífurlega miklir efnahagslegir hagsmunir eru annars vegar, bæði fyrir þjóðarbúið og störf fjölda fólks í landinu. Miklar fjárfestingar eru á mörgum stöðum, bæði til sjós og lands. Eins og jafnframt hefur komið fram í máli manna hér hefur Hafrannsóknastofnun verið fjársvelt í gegnum árin og er nauðsynlegt að efla rannsóknir og vöktun á miðunum og mikilvægt að hægt sé að treysta því að nægar rannsóknir liggi að baki því til dæmis hvaða áhrif stækkandi þorskstofn hefur á loðnustofninn.