145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

ný aflaregla í loðnu.

[16:12]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og ráðherra fyrir svörin. Ég held að það sé samhljómur hér hjá þingmönnum, ég er sammála því, um að við ætlum að stunda sjálfbærar veiðar. Við ætlum ekki að taka of mikið en við ætlum heldur ekki að skilja of mikið eftir og láta loðnuna deyja í of miklu magni.

Ástæðan fyrir því að ég bað um fund í atvinnuveganefnd og þessa umræðu hér er þessi orð sem standa á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar, með leyfi forseta:

„Aðstæður til bergmálsmælinga höfðu reynst erfiðar vegna veðurs mestalla yfirferðina og því ekki talið fært að nota niðurstöðurnar til ráðgjafar.“

Síðan kom önnur vika með góðu veðri, 13.–20. janúar; sjö dagar sem voru notaðir til að byggja þessa niðurstöðu á. Það er þarna sem ég stoppa við og tel að við séum ekki að standa okkur nægjanlega vel í þessu. Þá kemur inn stór hluti sem er úthald hafrannsóknaskipa og fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunar sem þarf að auka.

Hæstv. ráðherra ræðir um umhverfisskilyrði í hafinu og það er alveg hárrétt, þau ráða mjög miklu. Það er hlýrri sjór. Þess vegna þurfum við að komast miklu, miklu norðar til að fylgjast með en þar geta veður verið enn verri en gerðist á þeirri slóð sem skipin sigldu. Er mikið af loðnu lengst norður undir Scoresbysundi, eða hvar er hún? Hún hefur stundum komið hér upp að. Menn eru jafnvel að bíða eftir því núna og skilja ekki: Hvar er kökkurinn sem norsku nótaskipin voru að veiða í djúpt út af Seyðisfjarðardjúpinu fyrir viku eða þar um bil? Hvar er loðnan? Hvar kemur hún upp að? Hún er brellin og hefur oft komið í miklu magni þegar við höfum jafnvel spáð að lítið af henni væri á ferðinni.

Það er ákaflega mikilvægt fyrir hæstv. ráðherra að heyra þann samhljóm sem hér kemur fram um auknar fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunar þannig að hægt sé að stunda betri rannsóknir, (Forseti hringir.) Við þurfum að fá þær niðurstöður þannig að við höfum bestu niðurstöður til að taka svo afdrifaríkar ákvarðanir sem hér hafa verið teknar.