145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

sala ríkisins á leigufélaginu Kletti ehf.

488. mál
[16:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir að svara fyrirspurn minni hér í dag.

Fyrirspurnin er einföld. Hún hljóðar svo:

Hver er ástæða þess að Íbúðalánasjóður hefur sett leigufélagið Klett ehf. í söluferli og telur ráðherra að sala félagsins stuðli að því að markmiðum ráðherra í húsnæðismálum verði náð?

Um árabil hefur verið talað um að efla almennan leigumarkað. Það hefur verið í vinnu ár eftir ár og nú eru loks komin fram frumvörp í þá áttina. Það eru almennu íbúðafélögin og húsnæðisbæturnar. Almennu íbúðafélögin eru fyrir fólk í tekjulægri hópum en það er mikilvægt að efla almenna leigumarkaðinn yfir höfuð, líka fyrir þá sem eru með miðlungstekjur og hærri.

Á síðasta kjörtímabili tók þáverandi ráðherra, Guðbjartur Hannesson, þá ákvörðun að nota uppistöðuna í þeim leigufélögum sem höfðu farið á hausinn í hruninu til að búa til nýtt leigufélag í eigu Íbúðalánasjóðs sem sinnti hlutverki almenns leigufélags. Félagið á um 500 íbúðir sem það leigir út og rekstur þess gengur vel. Þarna hefur verið búinn til valkostur fyrir fjölskyldur um langtímaleigu, þ.e. húsnæðisöryggi. Það hefur verið vandinn á almennum leigumarkaði að fólk hefur ekki getað búið við húsnæðisöryggi heldur jafnvel þurft að flytja árlega og börn á milli skóla samhliða því. Það eru auðvitað óviðunandi uppeldisaðstæður fyrir börn.

Það eru í raun þrjú félög á markaðnum sem sinna þessum almenna markaði, en þau eru Heimavellir með um 500 íbúðir, Almenna leigufélagið í eigu Gamma, sem er með um 500 íbúðir, og svo Klettur sem á um 450 eignir.

Þetta félag var formlega stofnað í ársbyrjun 2013 þannig að það er þriggja ára, hefur gengið vel og hefur haft tök á að stækka og fjölga íbúðum. Ég skil ekki af hverju ráðherra leyfir þessu félagi ekki að lifa áfram og sinna þar með því hlutverki fyrir hönd ríkisins að vinna að uppbyggingu almenns öruggs leigumarkaðar.