145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður heyrir oft þá kvörtun, og réttilega, frá sveitarfélögunum að lagðar séu á þau skyldur án þess að fjármagn eða frelsi fylgi til að haga málum eftir þörfum hvers sveitarfélags. Mér er mjög illa við það vandamál.

Þó finnst mér mikilvægt að sveitarfélögin geti kannski ekki ákveðið allt sjálf. En frekar of mikið en of lítið, einmitt vegna þess að mér finnst mikilvægt að borgarinn sé nálægt því valdi sem snýr að honum.

En við erum hér að tala um þau grundvallarréttindi, verður maður að segja, að fólk sé ekki skilið eftir eftir allt saman. Ég fæ ekki séð hvernig það ætti heima hjá sveitarfélögunum ef við nálgumst vandamálið út frá þeirri forsendu að um réttindi sé að ræða. Eins og til dæmis ellilífeyrisréttindi eða örorkuréttindi eða eitthvað því um líkt, réttindi sem fólk hefur, sem ríkið á að tryggja til að fólk hafi í sig og á við erfiðar aðstæður og eftir atvikum í lífinu.

Mér finnst skjóta skökku við að hafa þetta hálfmiðstýrt. Mér finnst annaðhvort að þetta sé réttindamál og eigi þá að ganga jafnt yfir alla eða að þetta sé þjónustumál sem er þá kannski frekar eitthvað sem maður mundi vilja að sveitarfélögin kæmu að.

Þetta eru nú reyndar bara vangaveltur hjá mér. Mér finnst einhvern veginn að ef við ætlum að líta á þetta sem réttindamál þá eigi ríkið að tryggja þetta. Mér finnst svolítið — ég velti fyrir mér hvort það er réttur skilningur hjá mér — eins og við séum að segja sveitarfélögunum að inna eitthvað af hendi sem er eftir okkar eigin höfði án þess að gefa sveitarfélögunum svigrúm eða tækifæri til að sníða þessi verkfæri að eigin þörfum. Mér finnst það ekki alveg sanngjarnt gagnvart sveitarfélögum. Mér finnst að ef þetta teljast grundvallarréttindi þá þurfum við að tryggja það hér á Alþingi og hjá ríkinu.