145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:26]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður tekur hér dæmi af fólki sem hefur flosnað upp úr námi og þarf hvatningu og er ef til vill uppburðarlítið. Þar er ég sammála. Þetta fólk þarf að hvetja áfram. En ég spyr mig hins vegar: Er líklegt að það bæti eitthvað að hóta fólki sem er uppburðarlítið fyrir? Það er það sem ég les út úr þessu frumvarpi. Er vænlegt til árangurs að segja: Ef þú ferð ekki og gerir þetta eða hitt þá tökum við af þér hluta af framfærslunni, þ.e. bótunum sem þú færð greiddar frá sveitarfélaginu? Ég held að verið sé að gera illt verra með því að fara þá leið. Hv. þingmaður segir að þetta snúist bara um fólk sem hafi burði til að vinna, en hafi ekki verið metið, en ég verð að viðurkenna að ég er hugsi yfir því hvort frumvarpið geri það því að hér segir undir lok 2. gr. að sveitarfélögum sé heimilt að gera samstarfssamning við Vinnumálastofnun um mat á vinnufærni. Ég veit ekki hvort Vinnumálastofnun er til þess bær að gera slíkt mat. Ég hef því áhyggjur af því og fyrir utan það að ég er í grundvallaratriðum á móti nálguninni tel ég að ef við gefum okkur að verði frumvarpið að lögum sé staða mjög viðkvæmra hópa hreinlega ekki nógu vel tryggð. Deilir hv. þingmaður þessum áhyggjum mínum?