145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

samstarf Íslands og Grænlands.

23. mál
[16:57]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vissi að ég kæmi ekki að tómum kofanum hjá hv. þingmanni hvað varðar loftferðasamninginn og það er ákaflega ánægjulegt að fá þessa upprifjun hér um þann samning sem gerður var í lok árs 2011.

Það er alveg hárrétt að það var hluti af því sem við töluðum um á þessum árum, þegar ég var samgönguráðherra, hve mikilvægt það væri fyrir Flugfélag Íslands að efla þetta samstarf.

Þegar Flugfélag Íslands er að efla flugflota sinn og breyta, koma með nýjar vélar, þá hef ég á tilfinningunni að þetta muni stóraukast. Við skulum hafa í huga að þetta er „win win“, skulum við segja, fyrir bæði Grænlendinga og Íslendinga. Það er gott fyrir okkur að geta boðið þeim ferðamönnum sem heimsækja okkur hvort sem er dagsferð eða lengri ferðir til Grænlands. Þar með getum við stækkað pakkann en ferðamenn vilja alltaf fá mjög mikið út úr ferðalagi sínu og vilja helst vera að skoða eitthvað nýtt allan sólarhringinn nema rétt til að hvíla sig fyrir næsta dag.

Ég fagna því líka — ég vissi að við á landsbyggðinni ættum hauk í horni hvað það varðar — að við loftferðasamninginn sem gerður var var hugað mjög vel að Akureyri og Egilsstöðum. Á Akureyri er lítið flugfélag sem heitir Norlandair og ég er alveg sannfærður um að þetta er stærra en fimmtungur í rekstri þar.

Það eitt sem við ræðum núna sýnir í hvað er að sækja. Það er beggja hagur að efla þessi tengsl eins og þessi þingsályktunartillaga segir til um.