145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

verðtrygging og afnám hennar.

[11:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í febrúar 2015 óskaði hv. 3. þm. Reykv. s., Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, eftir sérstakri umræðu við hæstv. forsætisráðherra um afnám verðtryggingar, en ekki var orðið við því. Hv. þingmaður, hinn sami, hefur lagt fram frumvarp um afnám verðtryggingar sem er 461. mál og liggur fyrir þinginu. Það hefur litið þannig út að hæstv. forsætisráðherra þori ekki að tala um þetta mál, heldur hefur hann beint fyrirspurninni til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem er yfir málaflokknum.

Það verður því að gera ráð fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra tali fyrir ríkisstjórnina í málaflokknum. Ég geri fastlega ráð fyrir því að hæstv. ríkisstjórn hafi rætt málið. En ég verð að segja fyrir mig að mér finnst þetta allt orðið hið vandræðalegasta mál, hvernig umræðan um þetta hefur þróast hér á þinginu, eða hefur öllu heldur ekki þróast.

Mér hefur alltaf fundist það svolítið skrýtin spurning hvort maður sé hlynntur verðtryggingu eða ekki. Mér finnst réttara að spyrja hvort maður sé hlynntur því að val um verðtryggð lán sé til staðar eða ekki. Sömuleiðis þykir mér umræðan í meginatriðum snúast um vexti og auðvitað verðbólgutilhneigingu krónunnar. En ég velti fyrir mér sjónarmiðum hæstv. ráðherra í þeim efnum og sér í lagi sjónarmiðum ríkisstjórnarinnar.

Ekkert bendir til þess, að mínu mati, að með afnámi eða banni á verðtryggingu mundu vextir lækka. Ég veit að til eru hugmyndir um slíkt, en sá sem hér stendur er ekki mjög trúaður á þær. Ég ber auðvitað fulla virðingu fyrir því að aðrir hafi önnur sjónarmið og ég vænti þess að þau komi fram í þessari umræðu, en mig langar sérstaklega að vita hvað hæstv. fjármálaráðherra finnst um það.

Núna borgar fólk sem er með óverðtryggð lán miklu hærri upphæðir en fólk sem er með verðtryggð lán, enda er verðbólga ekki mikil eins og er. En það getur breyst. Ef við tökum mið af sögunni þá kemur það til með að breytast með tímanum. Þess vegna eru verðtryggð lán jú til. Þau eru til þess að sparifjáreigendur og lánveitendur sjái sér nokkurn hag í því að lána til lengri tíma. En með krónu, sem hefur þessa sterku verðbólgutilhneigingu, er ekki hægt að gera langtímafjármálaskuldbindingar að mínu mati, til 40 ára eða svo, án þess að einhver tæki séu til að vega upp á móti verðbólgutilhneigingunni.

Þessi valkostur sem við búum við í dag heitir verðtrygging og er eðlilega umdeilt fyrirbæri og auðvitað sérstaklega og aðallega eftir hrun eða verðbólguskot. Vandinn er augljós að mínu mati, háir vextir verða áfram jafnvel án verðtryggingar. Fólk getur tekið óverðtryggt lán í dag. Það er í raun og veru ekkert sem hindrar fólk í að gera það nema háir vextir og í beinu framhaldi há greiðslubyrði.

Ég velti því stundum fyrir mér hvaða vandamál það er nákvæmlega sem fólk vill leysa með því að banna verðtryggingu. Ég sé ekki betur en að eitt val sé einfaldlega tekið burt, sem fólk ætti að geta hafnað ef valkosturinn er svona bölvanlegur til að byrja með.

Einhver sagði á sínum tíma og að mínu mati er svolítið til í því: Þjóðin gæti afnumið verðtryggingu sjálf með því að hætta að taka verðtryggð lán. Það gæti hún gert. En hún gerir það ekki vegna þess að þá er hún neydd til að taka lán sem eru óverðtryggð og þar af leiðandi með himinháum vöxtum, upp á 8% eða svo +/- 0,5. Mér finnst því verulega við hæfi, í ljósi kosningabaráttunnar 2013 og loforða Framsóknarflokksins, sem ég veit að hæstv. fjármálaráðherra tók ekki þátt í, að það komi hér fram á þinginu, í formi sérstakrar umræðu og umræðu um frumvarp hv. þingmanna Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur og Helga Hjörvars, hvert viðhorf þingmanna er til verðtryggingarinnar. Ég vona að við getum þá komið fram með þau sjónarmið sem talin eru réttlæta það að banna þetta fyrirbæri, verðtrygginguna.

Eins og ég sagði hér áður þá ber ég fulla virðingu fyrir þeim sem eru á móti þessum valkosti og telja hann efnahagslega skaðlegan. En þá þurfum við að ræða það hér og þá eiga hæstv. ráðherrar að ræða það við þá þingmenn sem óska eftir þeim umræðum.

Ég lít ekki svo á að maður sé ýmist hlynntur verðtryggingu eða ekki, heldur valkostinum. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann sé hlynntur valkostinum. Hvort ríkisstjórnin áformi að afnema eða takmarka verðtryggingu með einhverjum hætti. Og síðast en ekki síst spyr ég hvort hæstv. ráðherra muni styðja að umrætt frumvarp hv. þingmanna Samfylkingarinnar fái hér fulla meðferð þingsins.