145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

verðtrygging og afnám hennar.

[11:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að ræða verðtrygginguna í þingsal. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki séð sér fært að ræða verðtryggingu hér og þingmenn Framsóknarflokksins hafa gert hæstv. fjármálaráðherra að blóraböggli fyrir því að ekki sé hægt að efna kosningaloforð flokksins.

Verðtrygging fjárskuldbindinga er eitt af séreinkennum íslenska fjármálamarkaðarins. Víðtæk verðtrygging neytendalána þekkist ekki í neinu þróuðu hagkerfi sem hlýtur að segja sína sögu um hversu eftirsóknarverð verðtrygging í raun er. Við hljótum því að stefna að því að verðtryggingin verði afnumin og íslenskur lánamarkaður verði svipaður og í nágrannalöndum okkar.

Ég hef því, ásamt hv. þm. Helga Hjörvar, lagt fram frumvarp um bann við verðtryggingu neytendalána. Þetta er einfalt frumvarp og nær markmiðum sínum hratt og örugglega.

En það er auðvitað ekki eina færa leiðin að því markmiði að banna verðtryggingu. Það eru því nokkur vonbrigði að ríkisstjórnin aðhefst ekkert í málinu. Engin frumvörp eða skref tekin að því markmiði. Ég minni á skýr loforð í þessum efnum og væntingar fólks um breytingar. Verði ekkert aðhafst mun traust fólks á stjórnmálum enn minnka og vantrú vaxa.

Ég vil minna hæstv. fjármálaráðherra á að fjármálaráðuneytið hefur mótað þá stefnu að á árunum 2014–2017 skuli 60–90% af lánum ríkisins vera óverðtryggð og að af heildarskuldum ríkissjóðs skuli aðeins 23% vera verðtryggðar við árslok 2017. Ríkissjóður er sjálfur að færa sig úr verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Það kemur ekki á óvart því rannsókn á vegum Lánamála ríkisins sýndi að ríkissjóður hafði sparað sér 35 milljarða króna á núvirði á árunum 2003–2014 með því að gefa frekar út óverðtryggð skuldabréf.

Ég vil að lokum minna hæstv. fjármálaráðherra á að ríkisstjórnin hefur (Forseti hringir.) framkvæmt almenna niðurfærslu á verðtryggðum húsnæðislánum. Þessi niðurfærsla kostaði 80 milljarða hið minnsta (Forseti hringir.) og er auðvitað fullkomið vantraust á hinu verðtryggða lánakerfi.