145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

verðtrygging og afnám hennar.

[11:30]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég hef í raun og veru aldrei almennilega áttað mig á því af hverju gerðar eru kröfur um að banna verðtryggingu. Hvað er verðtrygging? Þetta er auðvitað bara eitt form á breytilegum vöxtum, þetta er bara hlutlæga aðferðin, ekki spá. Þetta hefur auðvitað galla, verðtryggingin hefur galla, það er freistnivandi, að taka hærra lán en maður þarf o.s.frv.

Við tölum um að vandamálið sé dýrt fjármagn. Við erum alltaf að tala um afleiðingar, aldrei hvar orsökin liggur. Af hverju er lánsfé dýrt? Af hverju er verðbólga? Það eru tvö lykilatriði til að koma í veg fyrir slíkt (Gripið fram í.) — það er ekki ESB, nei, það er það að ríkisfjármálin séu í lagi og að hér sé vinnumarkaður sem semur ekki um kaup og kjör langt umfram það sem efnahagslegar forsendur eru til. Ef við komum þessu í lag, sem kannski er möguleiki núna, sýnist mér, væri enginn að ræða um verðtryggingu, ekki nokkur maður. Þetta er það sem við þurfum að átta okkur á, að þegar við komum því í lag taka menn kannski ekki þessi lán sjálfkrafa, það er óþarfi, nema kannski örlítill hópur sem ella gæti þá ekki fengið fyrirgreiðslu eða eignast íbúðarhúsnæði, þannig að þessi valmöguleiki sé þó fyrir hendi — en þetta form verður væntanlega ekki mikið notað.

En allt í einu erum við komin í umræðu um að banna hluti, tala um allt annað sem skiptir ekki máli. Við græðum ekkert á því. Tölum um grundvallaratriði.