145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 191/2015 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

433. mál
[13:45]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 191/2015 um breytingu á XX. viðauka (umhverfismál) við EES-samninginn. Á mannamáli má kannski segja að hún fjalli um vernd umhverfisins með refsiákvæðum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Aðalheiði I. Þorsteinsdóttur frá utanríkisráðuneytinu og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Með þessari tillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 191/2015, frá 10. júlí 2015, um breytingu á XX. viðauka (umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/99/EB frá 19. nóvember 2008 sem, eins og áður sagði, er um vernd umhverfis með refsiákvæðum.

Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 10. janúar 2016. Framsetning tillögunnar telst, að mati hv. utanríkismálanefndar, í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Tilskipun 2008/99/EB felur í sér að aðildarríki skuli setja refsiákvæði í þeim tilgangi að vernda umhverfið með árangursríkari hætti. Aðildarríkjunum ber að tryggja að viðurlög við brotum séu áhrifarík, séu í samræmi við brotin og hafi varnaðaráhrif. Þá telst sú háttsemi sem tiltekin er í gerðinni refsiverð ef hún er ekki í samræmi við lög og reglugerðir og framin af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Ólögmætar athafnir eru þannig refsiverðar en einnig tiltekið athafnaleysi sem felur í sér alvarlega vanrækslu. Þá er hlutdeild í brotum refsiverð og skal tryggja að lögaðilar geti hlotið refsingu fyrir brot sem forsvarsmenn þeirra bera ábyrgð á.

Tilskipunin kveður einungis á um hvers konar umhverfisbrot skuli refsiverð, hverjir skuli bera refsiábyrgð og hvers konar þátttaka í brotum skuli refsiverð. Aftur á móti ber að tryggja að viðurlög séu áhrifarík, þau séu í samræmi við brotin og hafi varnaðaráhrif.

Refsilöggjöf er ekki hluti af EES-samningnum. Því er í aðlögunartexta meðal annars lýst yfir að upptaka gerðarinnar hafi ekki fordæmisgildi hvað varðar aðra löggjöf sem innihaldi refsiákvæði. Jafnframt er gerð aðlögun varðandi þær gerðir sem vísað er til í viðauka við gerðina og ekki hafa verið felldar inn í EES-samninginn.

Innleiðing þessarar tilskipunar kallar á breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Kveða þarf á um og útvíkka refsiábyrgð lögaðila, einkum á sviði almennrar náttúruverndar, til að koma á sams konar kerfi og kveðið er á um í tilskipuninni.

Þá þarf að tilgreina í lögum í hvaða tilvikum athafnaleysi, þ.e. þar sem er alvarleg vanræksla, getur leitt til refsiábyrgðar á sama hátt og til dæmis ólögmæt losun mengunarefna.

Þá þarf einnig að meta hvort gera þurfi breytingar á samstarfi umhverfisyfirvalda, lögreglu og ákæruvalds þegar um refsiverð umhverfisbrot er að ræða.

Loks þarf að auka bolmagn til eftirfylgni refsiverðra umhverfisbrota, útfæra reglugerðir, löggjöf og verkferla nánar auk þess sem fjárveitingu þarf til þess að lögreglu sé mögulegt að rannsaka þau brot sem tilkynnt er um í samræmi við markmið þessarar tilskipunar.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru hv. þingmenn Elín Hirst og Karl Garðarsson en sú er hér stendur, ásamt hv. þingmönnum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Frosta Sigurjónssyni, Óttari Proppé, Silju Dögg Gunnarsdóttur, Vilhjálmi Bjarnasyni og Össuri Skarphéðinssyni, rita undir þetta nefndarálit.