145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

fullgilding stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

436. mál
[14:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann og framsögumann þessa erindis. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Auk þess muni bankinn stuðla að svæðisbundinni samvinnu og samstarfi til að taka á áskorunum í þróunarmálum, með því að vinna í nánu samstarfi við aðrar fjölþjóðlegar og tvíhliða þróunarsamvinnustofnanir.“

Það kemur líka fram, sem mér finnst aukaatriði, að stofnframlagið eigi að svara um 2,3 milljörðum kr. en svo eru menn að tala um að það verði kannski ekki allt borgað og ekki þurfi að borga það. Mér finnst það kostulegur málflutningur vegna þess að ef skuldbindingin er 2,3 milljarðar þá er hún 2,3 milljarðar. Ég sé ekki að það eigi að hafa áhrif á ákvörðun okkar um hvort við tökum þátt í þessu samstarfi hvort við þurfum að borga það að fullu eða ekki. Ég vil gera þá athugasemd.

Það er talað um þróunarsamvinnu og mig langar tað fá staðfestingu á því frá hv. formanni nefndarinnar að þeir peningar sem fara í þetta verði ekki hluti af þeim peningum sem Alþingi úthlutar til þróunarsamvinnu, að það sé alveg ljóst að við séum ekki að tala um þá peninga sem við erum með á áætlun og eiga að fara til þróunarsamvinnu heldur verði það örugglega nýir peningar, ef ég má orða það svo, virðulegi forseti.