145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

fullgilding stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

436. mál
[14:31]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þarf mjög góð gleraugu til að finna hvar það er sem við erum hugsanlega sammála, ég og hv. þingmaður, í því sem hér var sagt. En ég vil byrja á því að segja að þrátt fyrir hörmulegar heimsstyrjaldir og stríð á 20. öldinni þá er hún mesta framfaraskeið mannkynssögunnar vegna þess að á 20. öldinni byggðum við góðan vísi að velferðarþjónustu, menntakerfi og það var gert með sameiginlegu átaki almennings í gegnum sveitarfélög og ríki. Þjóðfélögin gerðu það. Þau bjuggu þetta til. Og að ætla að afgreiða það út af borðinu og segja að það hafi ekki gefið góða raun að taka á í sameiningu — þannig byggðum við Íslendingar upp okkar samfélag á þessum tíma.

Tilgangurinn, segir hv. þingmaður, er aðstoð. Það held ég ekki. Ef ég tek það sem meiri hluti utanríkismálanefndar þingsins segir þá er tilgangurinn sá að gefa íslensku viðskiptalífi tækifæri og gera Ísland sýnilegra á stærsta vaxtarsvæði heimsins. Þetta segir líka í þingsályktunartillögunni. Hv. formaður utanríkismálanefndar sagði hér áðan, ítrekaði þá afstöðu, að þetta væri fyrst og fremst í viðskiptalegum tilgangi sem þetta væri gert. Þannig að áherslan er ekki á þróun eða aðstoð. Þetta er viðskiptalegs eðlis.

Ég er bara að auglýsa eftir því að menn viti hvað það er nákvæmlega sem þeir eru að gera. Ég vil fá umræðu um það. Eða finnst hv. þm. Brynjari Níelssyni ekki eðlilegt, áður en hann skuldbindur íslenska skattgreiðendur til að leggja af mörkum 2,3 milljarða kr., að við fáum að vita á hvaða forsendum það er gert?