145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

búvörusamningur og framlagning stjórnarmála.

[13:54]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að lýsa áhyggjum sínum og gefa mér tækifæri til að vonandi draga úr þeim. Þau mál sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega, húsnæðismál og búvörusamningar, hafa verið unnin í heilmiklu samráði þó að menn muni auðvitað áfram vinna með húsnæðismálin. Þetta er gríðarlega stórt mál sem menn hafa kannski ólíkar áherslur í eða ólíkar skoðanir á, vilja koma með ábendingar um og til þess er vinnan í þinginu ætluð. Vonandi skilar hún sem bestri niðurstöðu en ég minni hv. þingmann á að þetta er liður í kjarasamningum og það hefur enginn mér vitanlega haldið öðru fram en að til stæði að klára þetta, enda stjórnvöld búin að skuldbinda sig til þess að gera það. Auk þess er það liður í sameiginlegri stefnu ríkisstjórnarinnar, stjórnarsáttmálanum, svoleiðis að áhyggjur af þessu máli eru óþarfar hjá hv. þingmanni. En það er um að gera að nota tímann sem best á þinginu til að ræða þetta og gera það sem best úr garði.

Hvað varðar búvörusamninga ítreka ég það sem ég nefndi áðan að þeir snúast um starfsaðstöðu og kjör stéttar, bænda, en þeir snúast líka um hagsmuni neytenda. Þeir snúast um það að íslenskir neytendur geti keypt heilnæma innlenda gæðavöru á samkeppnishæfu verði. Hér áður fyrr voru þetta kallaðir neytendastyrkir og það er kannski frekar réttnefni en hitt, auk þess sem þetta skiptir okkur máli efnahagslega, þetta sparar gjaldeyri og er byggðamál og svo fjölmargt annað svoleiðis að með búvörusamningum, ég tala ekki um þessum búvörusamningum þar sem verið er að þróa hlutina áfram og gera greininni kleift að sækja enn frekar fram, er verið að semja við stóra stétt en um leið koma til móts við allan almenning í landinu.