145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

aukin viðvera herliðs á Keflavíkurflugvelli.

[14:34]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka sérstaklega fyrir þessa umræðu. Hún er mikilvæg. Þegar fréttin um þessar breytingar á Keflavíkurflugvelli fór af stað vakti hún mikla umræðu í samfélaginu sem bendir til þess að við þurfum að ræða þessi mál oftar hér á þingi og bara almennt.

Við Íslendingar tölum oft um að við séum herlaus þjóð og höfum verið alla tíð, en engu að síður var herlið með fasta viðveru á Íslandi í 40–50 ár. Mjög margir fögnuðu því þegar herinn fór og hafa fagnað því að við höfum getað búið við þær aðstæður að þurfa ekki að hafa her. Þess vegna held ég að það hafi komið illa við marga þegar þær fréttir heyrðust, sérstaklega í þessu formi, sem eins konar njósn úr herriti utan lands, að til stæðu miklar breytingar; eða gefið var í skyn að hér gæti verið upphaf að miklum breytingum. Það er ekki að ástæðulausu að við þurfum að taka umræðu um það vegna þess að þrátt fyrir það samkomulag sem gert var þegar Bandaríkjaher fór héðan, um loftrýmisgæslu og aðstöðu NATO á Keflavíkurflugvelli, þá skiptir mjög miklu máli að hér er ekki föst viðvera herliðs og mikilvægt að breið umræða skapist um þær breytingar sem eru gerðar. Herleysi Íslands er mikilvægt og stendur hjarta Íslendinga nær.

Það er sorglegt (Forseti hringir.) að horfa upp á aukna vígvæðingu í heiminum og við Íslendingar skulum vara okkur á því að láta draga okkur inn í það eins og við mögulega getum.