145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

lagaskrifstofa Alþingis.

30. mál
[16:12]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Um þingið eru mörg ákvæði í stjórnarskrá. Þingið setur sér starfsreglur. Ég tel að lagaskrifstofa Alþingis þurfi ekki að vera bundin í stjórnarskrá enda er stjórnarskráin til þess að vernda rétt borgaranna gagnvart ofríki ríkisvaldsins. Þetta er sjálfstætt frumvarp um sjálfstæða stofnun. Við skulum frekar líta til hliðstæðra stofnana þingsins eins og umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar, líta frekar á lagaskrifstofu Alþingis í því samhengi. En þingið getur að sjálfsögðu sett á stofn lagaskrifstofu Alþingis með lögum án þess að ákvæði um það sé í stjórnarskránni. Það er alveg á hreinu. Til dæmis er ekki fjallað um það í stjórnarskránni hvort hér eigi að starfa nefndasvið eða fjármálaskrifstofa þingsins. Þingið hefur forræði yfir sínum málum og þetta er einn partur af því.

Varðandi umræðuna um Lögréttu, sem var tillaga ráðsins sem var raunverulega farið með í gegn fyrir rest í atkvæðagreiðslu í þinginu sem hét einu sinni stjórnlagaráð, þá tel ég að eins og með lagaskrifstofu Alþingis ætti ekki að binda Lögréttu í stjórnarskrá eða hvernig sem það var.

Virðulegi forseti. Ég get ekki að því gert, mér finnst alltaf frekar óþægilegt að ræða tillögu stjórnlagaráðs frá þessum tíma eins og hún hafi orðið að einhverjum lögum eða bindandi rétti fyrir þingið. Þetta voru bara tillögur eins og hverjar aðrar tillögur í samfélaginu og eins og frumvörp sem koma fyrir þingið og annað. En mér finnst oft (Forseti hringir.) og tíðum látið líta út fyrir að þetta hafi einhver bindandi áhrif fyrir þingið. Ég vildi koma því að.