145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

búvörusamningur.

[15:53]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mér fannst athyglisvert að hlusta á hæstv. ráðherra lýsa því samráði sem hefur átt sér stað. Það er greinilegt að við sjáum það samráð mismunandi fyrir okkur vegna þess að mér finnst það ekki endilega vera samráð ef einhverjum er kynnt eitthvað af því að það vildi þannig til að þingmaður hafði kallað eftir sérstökum umræðum um búvörusamninga. Það var ekki hæstv. ráðherra sem setti það mál á dagskrá. Ég tek undir það sem hefur komið fram að það hefði þurft miklu víðtækara samráð allra aðila sem eiga hagsmuna að gæta, neytenda, verslunarinnar, skattgreiðenda, um þetta stóra og mikilvæga mál. Ég er alveg viss um að við getum skapað sátt um þá mikilvægu atvinnugrein sem landbúnaðurinn er, en mér finnst ríkisstjórnin ekki einu sinni vera að reyna það.

Mér finnst þetta íhaldssamur samningur. Hæstv. ráðherra minntist meðal annars á lífræna framleiðslu, aukið vægi hennar. Ég sé samkvæmt þessum rammasamningi að miðað er við 35 milljónir á árinu 2017. Það er ekki há upphæð í lífræna framleiðslu. Þetta finnst mér ekki mjög framsækið. Það er gott að sjá að geitfjárrækt er komin á blað. Það er eitt og annað gott í þessum samningi, ég er ekki að gera lítið úr því, það er gott að við erum að komast út úr kvótakerfinu. En þetta er að mínu mati allt of íhaldssamt, bundið til of langs tíma og ekki í neinu samráði, vil ég segja, við þá sem máli skipta. Ég held ég geti fullyrt að samráð við neytendur hefur ekki verið mikið við gerð þessa búvörusamnings.

Það er endalaust hægt að tala um þetta. Mér finnst líka áhugaverður kynjavinkill þegar við skoðum landbúnaðarkerfið. Hvernig fáum við fleiri konur í þessa búgrein? Fleira ungt fólk? Við erum með mikla tollvernd. Við þurfum að ræða það. Ætlum við bæði að vera með háar beingreiðslur eða háa styrki og gríðarlega mikla tollvernd? Það er eiginlega bara (Forseti hringir.) Noregur sem stendur okkur framar í þeim efnum. Ég þyrfti meiri tíma, virðulegi forseti, en þetta verður víst að duga.