145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

fjármálafyrirtæki.

561. mál
[16:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (heimildir Fjármálaeftirlitsins til að takmarka tjón á fjármálamarkaði). Markmið frumvarpsins er að Fjármálaeftirlitið hafi heimild í lögum til að grípa til sérstakra ráðstafana við ákveðnar aðstæður eða atvik til að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði.

Efnislega samhljóða ákvæði hefur verið í lögum frá árinu 2008. Ákvæðið var upphaflega sett með neyðarlögunum en var í framhaldinu lögfest sem bráðabirgðaákvæði í lögum um fjármálafyrirtæki. Bráðabirgðaákvæðið hefur verið framlengt fjórum sinnum en það féll úr gildi þann 31. desember 2015. Frumvarpið kveður því ekki á um nýmæli heldur er það lagt fram sem efnislega samhljóða ákvæði og hefur verið í gildi undanfarin ár. Í frumvarpinu er lagt til að gildistími ákvæðisins verði til 31. desember 2017.

Heimildum á grundvelli efnislega samhljóða ákvæðis var síðast beitt í mars 2015 með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þegar Sparisjóður Vestmannaeyja var sameinaður Landsbankanum hf. með samruna án skuldaskila. Samkvæmt Fjármálaeftirlitinu hafði ákvörðunin þau áhrif að unnt var að takmarka tjón fyrir viðskiptavini sjóðsins, stofnfjáreigendur og skattgreiðendur. Ekki er því langt síðan ákvæðinu var síðast beitt sem sýnir að enn kann að vera þörf á þeim heimildum sem ákvæðið kveður á um. Ég vil þó taka skýrt fram að á þessari stundu bendir ekkert til þess að staða einstakra fjármálafyrirtækja sé slík að nú sé þörf á beitingu ákvæðisins.

Ég vil einnig nota þetta tækifæri til að upplýsa um það að frumvarp til nýrra heildarlaga um viðbúnað, skil og slit fjármálafyrirtækja kemur til með að leysa ákvæði þessa frumvarps af hólmi. Það frumvarp byggir á tilskipun 2014/59/ESB sem kölluð hefur verið BRRD-tilskipunin, á ensku „Directive on Bank Recovery and Resolution“. Sú tilskipun inniheldur meðal annars svipuð ákvæði um inngrip í rekstur fallandi fjármálafyrirtækis og ákvæði frumvarps þessa og mun það því tryggja þá hagsmuni sem ákvæðinu er nú ætlað að gera.

Varðandi gildistöku þess ákvæðis sem hér er lagt til að verði lögfest er horft til þess að tilskipunin muni verða leidd í lög áður en gildistími ákvæðisins fellur úr lögum. Þannig er stefnt að því að leggja fram frumvarp til nýrra heildarlaga um viðbúnað, skil og slit fjármálafyrirtækja á Alþingi á 146. löggjafarþingi.

Verði frumvarp þetta að lögum mun Fjármálaeftirlitið enn um sinn hafa heimild til að grípa til sérstakra ráðstafana í því skyni að takmarka tjón á fjármálamarkaði. Heimildir þær sem Fjármálaeftirlitinu eru veittar með ákvæðinu eru ríkar og er rétt að ítreka að frumvarpinu er ekki ætlað að bregðast við neinum sérstökum fyrirsjáanlegum vandkvæðum á íslenskum fjármálamarkaði, eins og ég vék að áður.

Þá er einnig ástæða til að minna á að regluverk á fjármálamarkaði hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár þar sem auknar kröfur hafa verið gerðar til fjármálafyrirtækja sem aftur minnkar líkurnar á fjármálaáföllum. Ég tel hins vegar mikilvægt að frumvarp þetta nái fram að ganga sem varúðarráðstöfun. Í sambærilegum aðstæðum og þegar Landsbankinn yfirtók Sparisjóð Vestmannaeyja í mars 2015 er líklegt að grípa verði fljótt til sérstakra ráðstafana til að takmarka tjón innstæðueigenda og eftir atvikum fjárfesta.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.