145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

upplýsingar um eignir í skattaskjólum, opinber innkaup.

[15:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Alþingi hefur samþykkt fjárveitingu til að styðja skattrannsóknarstjóra í að fjármagna kaup. Það gerðist í kjölfar þess að ríkisstjórnin lagði það til við þingið. Á síðasta ári náði skattrannsóknarstjóri samningum um kaup á þeim gögnum sem höfðu staðið til boða og voru hér talsvert í umræðu, en ég hef ekki frekari upplýsingar en þær sem komið hafa fram opinberlega um það hvernig gengur varðandi úrvinnslu þeirra gagna.

Eitt af því sem stendur upp á þingið að svara er spurningin um hvort menn eigi að fara umrædda amnesty-leið, þ.e. að gefa mögulega hlé gegn refsingum á móti því að menn geri leiðréttingu á skattskilum sínum aftur í tímann, en eins og menn muna þá skilaði nefnd tillögum um það til mín í ráðuneytið. Sú umræða fór síðan af stað hér í þinginu og í þjóðfélaginu öllu að hafa mætti ólík sjónarmið um það hvort þetta væri sanngjarnt og skynsamlegt. Í kjölfarið sendi ég málið hingað til þingsins til viðkomandi nefndar til frekari umfjöllunar og ég bíð eftir svörum frá nefndinni um það. En þar geta reynst tæki, hvatar, til þess að ná enn frekari árangri ef tekið er mið af því sem gerst hefur í nágrannalöndunum.

Varðandi opinberu innkaupin, þá er það sérstakt áhugamál mitt. Ég kom á fót starfshópi til þess að skoða tækifæri til að gera betur í opinberum innkaupum. Ég hef í millitíðinni ráðið sérstakan starfsmann í ráðuneytinu í það verkefni að fylgja tillögum nefndarinnar eftir. Ég hef tekið málið upp í ríkisstjórn og við höfum gert samþykktir í ríkisstjórn um að fela stofnunum að starfa með þeim sem eru að vinna þessum málum framgang í kerfinu.

En það er alveg hárrétt að við nýtum ekki sameiginlegan kaupmátt ríkisins á svo fjölmörgum sviðum. Ég er með handfylli og reyndar langan (Forseti hringir.) lista af dæmum um það að við erum að kaupa nákvæmlega sömu vöruna inn á ólíku verði eftir því hvaða stofnun á í hlut. Þarna er hægt að ná miklu meiri árangri með átaki sem stendur yfir.