145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[15:58]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta mál varðar hagi okkar allra. Það er náttúrlega spurning um hvernig við gerum upp hrunið almennilega. Þegar málið kom til nefndarinnar var það mjög furðulegt. Þeir ferlar sem voru settir upp virtust ekki vera í samræmi við góða stjórnsýslu, þannig að nefndin hefur gert töluvert miklar breytingar á því sem er gífurleg bragarbót miðað við það sem var.

Það að færa það undir fjármálaráðuneytið er kostur. Ég verð hins vegar að taka undir það sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði, ég sé enga ástæðu fyrir því af hverju þetta getur ekki verið opinbert hlutafélag eða eitthvað því um líkt. Þess vegna hefði ég frekar viljað sjá þetta örlítið breytt. En þar sem málið er komið í svona góðan farveg og hefur verið að vinnast mjög vel í nefndinni mun ég ekki vera á móti þessu heldur sitja hjá við atkvæðagreiðslu um málið.