145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[12:15]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að grípa niður í síðasta andsvar hv. þingmanns varðandi það að hv. þingmaður sé ekki stödd þar að þetta sé eitthvað sem eigi að heimila og um þá samlíkingu við einokun sem er sannarlega hluti af lýðheilsustefnu. Ég ætla að taka dæmi af Svíþjóð.

Svíar skilgreina spilastarfsemi sem lýðheilsumál, þ.e. þann hluta sem snýr að skilgreindum spilavanda, að þá eiga um 2% þeirra sem spila við fíkn að stríða. Það er um það bil sama hlutfall og er hér samkvæmt því sem Daníel Ólafsson, dósent við Háskóla Íslands, hefur komist að með því að fara fram með spurningakannanir. Það er erfitt að nálgast viðfangsefnið nákvæmlega en það er engu að síður sama hlutfall þrátt fyrir það að í lýðheilsustefnu Svíþjóðar fari þeir einokunarleiðina, ekki ósvipað og við förum hér í áfengismálum. Þetta er því bara hluti af lýðheilsustefnu að horfa þannig á þrátt fyrir að hv. þingmaður sé ekki stödd þar.

Umræða hefur verið um tilganginn, að við þurfum bara ekkert á þessu að halda, og það er auðvitað kjarni málsins. Af hverju erum við að þessu? Við erum með frumvarpinu að reyna að bæta umgjörðina um þessa starfsemi. Það er nú kannski lykilatriðið í þessu, að með því að heimila hana á grundvelli leyfisveitinga er hægt að vinna gegn þeirri starfsemi sem þrífst í undirheimum, ég tala nú ekki um ef við hefðum hugrekki til að takast á við það sem fer fram á netinu. Við bönnum það og trúum því bara að það sé ekki til. En við skulum taka þetta í litlum skrefum og byrja þarna.