145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[14:30]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um spilahallir. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir frumvarpið og fyrir hversu gífurlega mikla vinnu hann hefur lagt í þetta mál. Þetta er mikill upplýsingabæklingur.

Ég er með honum á þessu máli. Það er ekki af því að ég sé einhver sérstakur áhugamaður um spilahallir, spilavíti eða hvað menn vilja kalla þetta. En þó að ég telji mig nokkuð grænan þá er ég ekki alveg svo grænn að geta lokað augunum fyrir staðreyndum. Fyrir mér snýst þetta um að koma böndum á þá starfsemi sem nú þegar er fyrir hendi. Í fullkomnum heimi vill auðvitað enginn sjá svona starfsemi, spilahallir eða hvað það heitir. Það hljómar ekki vel en blákaldur raunveruleikinn segir okkur að þessi starfsemi er fyrir hendi. Við skulum bara viðurkenna það.

Fjárhættuspil, eins og segir í greinargerð, hafa fylgt mannkyninu um aldir. Hlutaveltur, gömlu góðu bingóin, voru leyfð hér árið 1926 og árið 1945 var leyfð veðmálastarfsemi í kappróðri og kappreiðum. Þessar kappreiðar voru mikil mannamót, hvítasunnukappreiðarnar. Hver man ekki eftir þeim? Ég veit svo sem ekki til þess að menn hafi eitthvað skaðast á því að taka þátt í þeirri starfsemi. Þetta er kannski ekki alveg eins slæmt og það hljómar en staðreyndin er sú að þetta er fyrir hendi. Til marks um þróun mála má sjá í fjölmiðlum að auglýstar eru vefsíður sem bjóða almenningi aðgang að fjárhættuspilum. Þetta blasir við. Þá hafa fjölmiðlar og lögregla ítrekað greint frá því að ólögmætir spilasalir eru reknir hér á landi. Við getum ekki lokað augunum fyrir þessum staðreyndum.

Í greinargerðinni segir að ákveðin starfsemi hafi þegar verið heimiluð hér en önnur starfsemi af sama meiði, sem vitað er að þrífst á Íslandi og virðist fara vaxandi, standi utan alls eftirlits í eins konar svartholi. Við leyfum spilakassa. Við leyfum ákveðnum félagasamtökum að stunda þessa starfsemi og hafa af henni tekjur. Það eru reyndar góðgerðarfélög og allt gott um það að segja. En ég tel til bóta að reyna að koma böndum á þessa starfsemi. Ég er ekki viss um að sá hópur sem er veikastur fyrir verði sá hópur sem muni stunda spilahallir.

Hvað gera menn þegar svona vandi blasir við? Þeir líta til reynslu annarra, það er óþarfi að vera að finna upp hjólið. Hvernig hafa aðrar þjóðir tæklað þessi mál? Í þessari góðu greinargerð kemur fram hvernig danska löggjöfin er. Þetta frumvarp er mikið byggt upp á þeim gögnum.

Hér segir að í Danmörku hafi rekstur ólöglegra spilasala oftar en ekki tengst skipulagðri glæpastarfsemi. Lögleiðing spilahalla var því meðal annars rökstudd með því að hún væri framlag stjórnvalda til baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Ef þetta á við í Danmörku þá spyr ég: Af hverju á það ekki við hér heima? Og ef hér er spilað, eins og menn eru að tala um, fyrir milljarð eða meira á internetinu á ári þá finnst mér að við getum ekki lokað augunum fyrir þeim staðreyndum.

Danir fóru þessa leið. Það segir í greinargerðinni að fullyrt sé nú að starfsemi hinna ólöglegu spilasala hafi lognast út af í framhaldi af lagasetningunni, enda séu þeir ekki samkeppnishæfir við löglegar spilahallir sem sæti ströngu eftirliti. Ég er með á þessu máli á þeim forsendum. Við eigum að líta í reynslubanka annarra. Af rannsóknum má sjá að árið 2005 var algengi spilafíknar aðeins 0,1% í Danmörku hjá einstaklingum á aldrinum 18–74 ára, lægst allra Norðurlanda. Ef reynslan er svona jákvæð í Danmörku þá spyr ég: Af hverju reynum við þetta ekki hér? Við getum ekki lokað augunum fyrir staðreyndum.

Reynsla Dana af spilahöllum hefur verið góð líkt og að framan hefur verið rakið og hafa þeir með síðari breytingum nokkuð slakað á þeim ríku kröfum sem upphaflega voru fyrir hendi í danskri löggjöf, m.a. með aukinni útfærslu reglna í formi reglugerða í stað laga. Þannig að þeir voru strangir í upphafi og eru núna frekar að slaka á. Þetta frumvarp tekur þó mið af strangari áskilnaði en er í dönsku lögunum.

Eins og áður hefur komið fram fóru Danir þá leið að skattleggja nokkuð hátt hagnað af starfsemi á sviði fjárhættuspila og hafa önnur nágrannalönd okkar jafnframt farið þá leið. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að fara sömu leið. Hér er talað um að skattleggja tvöfalt meira en í venjulegri starfsemi og upp í fjórfalt meira. Þetta er alls staðar leyft annars staðar á Norðurlöndum nema í Noregi og svo á Íslandi þannig að ég kaupi ekki að það verði einhver heimsendir þótt við gerum tilraun til að reyna að koma böndum á þessa starfsemi.

Það eru veikir einstaklingar innan um. Þannig er það í dag og það er ekkert launungarmál. Þó að spilahallir séu bannaðar á Íslandi þá finnast fíklar í þessu eins og öðru. Það sem er jákvætt í þessu máli er að með því skapast þó tekjur. Í 45. gr. er ákvæði um að ráðherra stofni sjóð sem hafi það hlutverk að stuðla að rannsóknum og efla meðferðarúrræði sem miði að því að sporna við spilafíkn. Þar sem markmið frumvarpsins er að stuðla að ábyrgri spilamennsku er nauðsynlegt að tilteknum hluta spilaskatts sé sérstaklega ráðstafað til forvarna, þ.e. að sporna við spilafíkn. Þá er kominn tekjustofn til að vinna í þessum málum fyrir þá sem sjúkir eru. Ég kýs að horfast í augu við vandann og líta á þetta sem lausnamiðað mál frekar en hitt.

Ég ítreka þakkir mínar til hv. þm. Willums Þórs Þórssonar fyrir hans miklu vinnu í þessu máli, þessum ágæta upplýsingabæklingi.