145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

erlendir leiðsögumenn.

[15:32]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni innilega fyrir þessa fyrirspurn. Ég tel hana mjög verðuga og get deilt áhyggjum þingmannsins af því hvernig ástatt er víða á ferðamannastöðum landsins. Ég hef sannarlega verið á svipuðum nótum með það að örva frekar þátttöku leiðsögumanna með hópa ferðamanna. Í stjórn þess þjóðgarðs sem við sitjum bæði í, Þingvallaþjóðgarði, er athugandi hvort ekki eigi að búa gesti undir það að farið verði í hópferð niður Almannagjá undir leiðsögn. Það geta verið tíðar ferðir. Ég held að það sé þannig komið og um þetta hef ég lítillega rætt við þjóðgarðsvörð.

Það er rétt hjá þingmanninum að það sé engin sérstök vinna í gangi. Þetta hefur verið rætt á sumum sviðum. Það er alveg sjálfsagt að skoða þetta mál mun betur. Ég deili áhyggjum þingmannsins og tel margt réttmætt í málflutningi hans hvað þetta varðar. Hvort við byrjum í þjóðgörðunum — ég get mjög vel tekið undir það.

Við eigum þrjá þjóðgarða mjög mismunandi gerðar eins og við vitum. Þingvellir eru þjóðgarður vegna menningarinnar fyrst og fremst, Vatnajökulsþjóðgarður út af jökli og eldsumbrotum og tekur yfir um 15% af landinu, og svo Snæfellsnesþjóðgarður sem er náttúrlega bæði með dreifbýli og þéttbýli innan garðs. Þeir eru mismunandi þessir þjóðgarðar og alveg sjálfsagt að reyna að skoða þetta. En ég sé ekki alveg, og mun svara í seinna svari mínu, hvernig ný hugmynd um stóran þjóðgarð á hálendinu ætti að leysa þetta mál.