145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

[15:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hinn 3. nóvember 2015 skipaði ég nefnd til að endurskoða lögin um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Eitt af fyrstu verkum þeirrar nefndar var að boða til fundar með helstu hagsmunaaðilum og leita eftir sjónarmiðum þeirra áður en hafist yrði handa um endurskoðun laganna. Til viðbótar þessum samráðsfundum var hagsmunaaðilum gefið tækifæri til að senda skriflegar athugasemdir og sjónarmið um væntanlegt frumvarp.

Ég vil tilkynna það hér, virðulegi forseti, og þakka um leið hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina, að þann 11. mars síðastliðinn bárust ráðuneytinu tillögur nefndarinnar um endurskoðun á lögunum og um er að ræða töluverðar breytingar á því fyrirkomulagi sem við þekkjum. Ég mun innan skamms kynna umræddar tillögur í ríkisstjórn, síðan fyrir þingflokkum og óska eftir áframhaldandi samráði við hagsmunaaðila. Síðan mun þingið, og hv. þingmaður þar með, fá tækifæri til að ræða málið hér í þingsölum.