145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

framhaldsskóladeild á Vopnafirði.

548. mál
[17:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á þessu. Forsagan er aðeins önnur en sú sem þingmaðurinn lét hér í skína, en með bréfi í maí 2014 lýsti mennta- og menningarmálaráðuneytið vilja til að styðja við hugmyndir Vopnfirðinga um opnun framhaldsskóladeildar á staðnum og var ráðgert þá að Menntaskólinn á Egilsstöðum og Verkmenntaskóli Austurlands yrðu bakhjarlar. Ekkert varð úr framkvæmdum á skólaárinu 2014–2015 þar sem raunin varð sú að enginn áhugi var meðal nemenda á þessari ráðstöfun og var það skilningur ráðuneytisins þá að fallið hefði verið frá þessari hugmynd. Ég tók eftir því að hv. þingmaður lét þessa ekki getið í forsendum fyrirspurnar sinnar heldur lét einhvern veginn líta svo út að þetta hefði verið allt gegn vilja þess sem hér stendur. Það er fjarri lagi.

Síðan þróast mál þannig í framhaldinu að heimamenn sýna áhuga á því að Framhaldsskólinn á Laugum verði bakhjarl framhaldsskóladeildar á Vopnafirði og það er rétt að við fengum bréf frá skólameistara í lok nóvember 2015 þar sem óskað var eftir heimild til að bregðast við ósk Vopnfirðinga. Skömmu síðar bárust fréttir af því að fjárlaganefnd hefði samþykkt 5 millj. kr. framlag til þessa tiltekna verkefnis. Þar með er sú staða komin upp — og það var alveg ástæða til þess að ráðuneytið áréttaði að í fjárlögum væri einungis rætt um fjárframlag til eins árs. Ég hef átt samtöl við þá sem að þessu máli koma og við höfum tekið þá ákvörðun af því að ég styð þessa hugmynd. Þess vegna lögðum við upp með það í upphafi, virðulegi forseti, að við kæmum þessu þannig fyrir að gerður yrði samningur til tveggja ára og að við færum þá af stað með það til að sjá hvernig þetta gengi fyrir sig, hvort það væri grundvöllur undir þessu, hvernig þetta mundi reynast í praxís. Það er fullur vilji innan míns ráðuneytis og hjá mér að við gerum þetta svona og látum reyna á þetta og ég vísa aftur til þess bréfs sem við sendum frá okkur í maí 2014 þar sem við studdum við þessar hugmyndir. Það er bara hvernig gekk með þær sem gerði það að verkum að menn litu svo á að ekki væri grundvöllur fyrir þessari deild.

Við vitum ekki hvernig muni ganga til með nemendur þegar upp verður staðið. Við vitum þann hóp sem kominn er núna, þá fjóra nemendur sem hv. þingmaður nefndi, en verðum að sjá til hverjir það verða í framhaldinu eða næsta ár á eftir. Þess vegna er þetta tilraunaverkefni og við erum að minnsta kosti að fara af stað. Í því er auðvitað fólgið fyrirheit um að ef við teljum að við náum þarna árangri förum við að sjálfsögðu ekki af stað með tilraunina til að gera ekki neitt í framhaldinu. Þá höldum við auðvitað áfram, það er vilji okkar.

Hv. þingmaður spyr hver áhrifin af starfsemi deildarinnar verði á fjölda nemendaígilda Framhaldsskólans á Laugum. Við vitum ekki nákvæmlega hvað það verður þegar upp verður staðið. Við vitum ekki hver nemendafjöldinn verður fyrir næsta haust í þeim skóla, en við vitum af þeim nemendum sem hér er um að ræða. Það þarf að horfa til þeirra og tilraunaverkefnið snýr þá auðvitað að því.

Virðulegi forseti. Þannig er þetta mál til komið eins og ég hef rakið hér. Við viljum gjarnan láta reyna á þetta. Við viljum gjarnan ná þarna árangri. Það skiptir máli að geta boðið upp á þessa þjónustu. Ég vil líka nota tækifærið og þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa komið að þessu máli og sýnt því áhuga. Ég tel að það sé komin mjög farsæl lausn í þetta mál, virðulegi forseti.