145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

afglæpavæðing vörslu neysluskammta af fíkniefnum.

[15:33]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ríkjandi stefna í fíkniefnamálum er refsistefna. Frá því að henni var komið á fót fyrir ríflega hálfri öld hefur sáralítið áunnist í baráttunni gegn fíkniefnaneyslu. Þetta svokallaða stríð gegn fíkniefnum, sem hefur verið háð bæði hérlendis og á heimsvísu, hefur ekki orðið til þess að neysla ólöglegra fíkniefna eða framboð þeirra hafi minnkað. Þvert á móti hefur neysla og framboð aukist jafnt og þétt á heimsvísu. Þessi stefna hefur kostað gríðarlega fjármuni og samfélagslegar fórnir sem hafa sáralitlu skilað til að ná því markmiði sem lagt var upp með, þ.e. að vinna gegn neyslu ólöglegra fíkniefna.

Þetta mál er auðvitað ekki nýtt af nálinni í þinginu. Ég minni á þingsályktunartillögu, sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir var 1. flutningsmaður að vorið 2013 og ég var meðflutningsmaður ásamt fleirum, sem gekk út á afnám refsinga fyrir vörslu neysluskammta og að unnið skyldi gegn fíkniefnaneyslu á forsendum heilbrigðis og félagslega kerfisins en ekki með því að refsa fársjúkum fíklum og meðhöndla þar með sjúklinga sem glæpamenn. Í þeim löndum þar sem refsingar hafa verið aflagðar fyrir vörslu neysluskammta fíkniefna hefur neysla fíkniefna minnkað í langflestum tilfellum.

Það er tímabært, virðulegi forseti, að horfast í augu við staðreyndir og ráðast að rót vandans, opna umræðuna og kasta fyrir borð aðferðum sem reynslan sýnir að hafa ekki virkað.

Fíkniefnamisnotkun er margslungið samfélagslegt málefni sem verður ekki leyst eingöngu á vettvangi löggæslu og dómstóla. Þetta er heilbrigðisvandamál öðrum þræði og slíkan vanda leysum við ekki með refsingum.