145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um fullnustu refsinga. Eins og fram hefur komið bæði við 1. og 2. umr. um málið er hér um að ræða gríðarlega yfirgripsmikið mál og í mjög fjölbreyttum skilningi er um mikla réttarbót að ræða í þessum viðkvæma og mikilvæga málaflokki þar sem mannréttindi hljóta að vera í öndvegi í öllum ákvörðunum sem teknar eru. Það er spurning hvort við ættum einhvern daginn að taka okkur tíma í lengri og kannski heimspekilegri umræður um hvort refsingar séu yfirleitt til bóta, bara það grundvallaratriði hvort það sé einhvern tíma vit í því að loka fólk inni. En miðað við þær forsendur sem íslenska réttarríkið býður okkur upp á og þann grundvallarramma og grundvallarhugsun sem við leggjum hér í grunninn tel ég að málið sé allt til bóta.

Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sem er fulltrúi í allsherjar- og menntamálanefnd, á þess ekki kost að taka þátt í umræðunni að þessu sinni. Hún er að sinna öðrum verkefnum. En mig langar í fyrsta lagi að fagna málinu í heild og þeim breytingum sem orðið hafa á milli 2. og 3. umr. þó að auðvitað hefði mátt gera enn þá betur að því er varðar betrunargrunninn og þau grundvallarsjónarmið og grundvallarhugmyndafræði, liggur mér við að segja, sem þarna er höfð að leiðarljósi og þræðir sig í gegnum frumvarpstextann allan.

Mig langar sérstaklega að geta þess að hér hafa orðið ein tíðindi við nefndarálit milli 2. og 3. umr. sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd skrifar öll undir. Það er sérstakur texti um réttarstöðu fanga sem eru heyrnarlausir, þ.e. um fanga sem nota táknmál sem móðurmál. Hér er um að ræða afar viðkvæman hóp með tilliti til samskipta og hættu á einangrun og þarf þess þá sérstaklega að sjást staður í lagaumhverfinu, að minnsta kosti í lögskýringargögnum og þar með í nefndaráliti, að horft sé sérstaklega til réttarstöðu þessa hóps.

Það gefur augaleið að hér er ekki um gríðarlega stórt málsamfélag að ræða. Hér er kannski um að ræða 200–300 manns þegar allt er talið. Þess vegna er sem betur fer ekki algengt að fangi sem reiðir sig á táknmál til samskipta sé í fangelsi. Þó er óásættanlegt annað en að þess sé getið með einhverju móti hvernig tekið yrði á slíkum tilvikum. Hér áréttar nefndin mikilvægi þess að tryggt verði ákveðið svigrúm til mats á því til hvaða sérstöku ráðstafana þurfi að grípa áður en heyrnarlaus fangi hefur afplánun og meðan á henni stendur. Í því sambandi þurfi sérstaklega að líta til samskipta á táknmáli, táknmálstúlkunar og þeirra atriða sem af þeim sökum varða vistunarstað, meðferðaráætlun, vinnu fanga, náms- og starfsþjálfun og svo framvegis.

Ég þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd sérstaklega fyrir að gefa þessum atriðum gaum. Mér er kunnugt um að Félag heyrnarlausra hafi komið á fund nefndarinnar og haldið þessum málum til haga af myndarskap frammi fyrir nefndinni og að nefndin hafi af þeim sökum tekið mið af þeim málflutningi hér í nefndaráliti. Ég fagna því sérstaklega vegna þess að hér er viðkvæmur hópur á ferð sem við þurfum að gæta sérstaklega að í allri okkar löggjöf, ekki síst vegna þess að samkvæmt lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensk táknmáls á íslenskt táknmál að hafa sambærilega stöðu við íslenska tungu. Ætti þá sérstaklega að vera um það að ræða þar sem við fjöllum um svona viðkvæma stöðu einstaklings sem byggir sitt daglega líf á samskiptum á íslensku táknmáli.