145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

almenn hegningarlög.

401. mál
[16:31]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jafnréttismálin eru á könnu allsherjarnefndar sem hefur mjög vítt starfssvið. Varðandi fyrra atriðið, brot gegn fötluðum, hefur formaður nefndarinnar, sú sem hér stendur, lýst því yfir að fyrsta skref okkar til að fara inn í það mál sé að kalla á okkar fund einstaklinga sem starfa hjá lögregluembættinu á Suðurlandi þar sem innleiddar hafa verið sérstakar verklagsreglur þegar um er að ræða brot gegn fötluðum einstaklingum. Við erum einfaldlega ekki komin þangað en það er það næsta sem við ætlum að gera í því og það er þá vonandi fyrsta skrefið sem leiðir okkur inn á einhverjar nýjar brautir sem ég get ekki sagt til um akkúrat núna hvernig enda.

En varðandi jafnréttið og hlutfall kvenna í til dæmis Hæstarétti hefur komið skýrt fram hjá þeirri sem hér stendur að það er óviðunandi að ekki gangi hraðar í þá átt að fjölga konum í Hæstarétti. Ég bind miklar vonir við að sú vinna sem fer brátt í gang í þinginu þegar frumvarp innanríkisráðherra um millidómstigið kemur inn muni skila okkur tækjum í þá átt að við sjáum fljótt árangur í þá veru. Það er það sem þingið getur gert í þeim efnum.

Varðandi hlutfall kynjanna hjá utanríkisþjónustunni er þar um að ræða gríðarlega stórt og vandasamt verkefni. Utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, hefur með verkum sínum sýnt að hann leggur mikla áherslu á jafnréttismál og jafnrétti kynjanna. Hins vegar er honum sá vandi á höndum að það eru afskaplega margir með titilinn sendiherra. Við erum alltaf að spara og þess vegna mun ganga hægt að snúa þar við hlutföllunum. Við eigum engu að síður að setja okkur markmið og ég trúi því að þegar hæstv. ráðherra Gunnar Bragi Sveinsson klárar sitt kjörtímabil í starfi, a.m.k. að þessu sinni, verði málin (Forseti hringir.) komin í öruggari farveg hvað kynjajafnrétti varðar.