145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

uppbygging innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

133. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

Það liggur fyrir að mikil þörf er á skýrri stefnumótun stjórnvalda um uppbyggingu á innviðum á ferðamannastöðum. Því tekur 2. minni hluti undir þau meginsjónarmið og mikilvægi þess að vel verði staðið að málum varðandi þá uppbyggingu sem fram undan er í viðkvæmri náttúru Íslands og að horft verði ávallt til verndarsjónarmiða á þeim svæðum sem það á við.

Við erum sammála markmiðum frumvarpsins en við teljum að fara þurfi betur yfir það og gera á því ákveðnar breytingar sem snúa m.a. að skýrari verkferlum og betra samspili stofnana, áætlana og annarrar löggjafar sem fjalla um sömu mál. Þetta á allt eins við núna og á síðasta þingi þegar málið kom fram.

Það er, hvað á ég að segja, ekki mjög verkglöð stemning yfir því að samþykkja málið óbreytt vegna þess að nefndin fékk til sín gríðarlegan fjölda gesta og mjög margir voru á því að hér þyrfti meiri samræmingar og meiri samstillingar við. Ég sjálf er þeirrar skoðunar að málið sé vanbúið af hendi ráðherra og það hefði þurft að stilla saman strengi betur áður en að málið kom til þingsins. Við hefðum í ljósi þess átt að minnsta kosti að freista þess að gera meira mál úr þessu, vandaðra og yfirgripsmeira mál, ekki síst í ljósi þess hversu mikilvægur málaflokkur er undir og mikilvægir þættir.

Það komu athugasemdir fram sem 1. minni hluti brást ekki við með neinum hætti og lutu m.a. að því að nýta betur löggjöf og stofnanir, sjóði og áætlanir o.s.frv. sem eru þegar fyrir hendi og snúa að ferðamannastöðum, þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum. Í umsögn Skipulagsstofnunar segir m.a. að ljóst sé að efni það sem hér er fjallað um sé í raun og veru verkefni skipulagsáætlana sveitarfélaganna nú þegar. Sama eigi við um þriggja ára verkefnaáætlun sem feli í sér samkvæmt 4. gr. frumvarpsins að framkvæmd verkefna landsáætlunar verði nánar útfærð í henni. Það sé því ljóst að efni verkefnaáætlunarinnar varði framtíðarnotkun lands sem skipulagsáætlanir fjalla óhjákvæmilega um án þess að samspil sé með nokkru móti skilgreint eða að minnsta kosti ekki með nægilega skýrum hætti.

Í umsögnum kom líka fram að óskýrt væri hvert samspil frumvarpsins væri til að mynda við rauðlista Umhverfisstofnunar, en Umhverfisstofnun hefur sent frá sér lista allt frá árinu 2010, ef mig minnir rétt, þar sem er listuð upp staða viðkvæmra svæða og friðlýstra svæða. Græni listinn er yfir þau svæði sem eru hólpin miðað við álagið eins og það er núna. Gulu svæðin eru í verra ástandi, appelsínugulu í enn þá alvarlegra ástandi og rauðu svæðin eru í raun og veru í þeirri stöðu að grípa þarf tafarlaust inn í. Þessi forgangsröðun hefur verið fyrir hendi mjög lengi að því er varðar ráðstöfun fjár af hendi Umhverfisstofnunar og þeirrar sýnar sem þar hefur verið.

Einnig er óskýrt samspil við Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, sem er eitt verkfæri í þessum málum, og við Stjórnstöð ferðamála sem nýlega hefur verið kynnt til sögunnar. Við getum líka nefnt verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs sem er stundum kölluð verndar- og stjórnunaráætlun og er ætlað að lista upp verkefni og forgangsröðun þeirra af hendi stjórnar þjóðgarðsins sem fer með vald sitt samkvæmt lögum og á að kalla eftir athugasemdum og forgangsröðun frá svæðisráðunum og gera síðan sína forgangsröðun sem ráðherra staðfestir svo í formi verndar- og stjórnunaráætlunar. Hún hefur þar með reglugerðargildi og er í raun og veru þar með orðin réttarheimild. Það er skýr og skilgreind forgangsröðun verkefna sem Vatnajökulsþjóðgarður hefur þá fullbúið í hendur ráðherra og þar með þeirra sem þjóðgarðsins njóta.

Einnig má nefna stefnumörkun Þingvallaþjóðgarðs, en svo vill til að allnokkrir fulltrúar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd eru líka í stjórn Þingvallaþjóðgarðs, m.a. sú sem hér stendur. Þar er líka þjóðgarður sem samkvæmt lögum setur saman sína stefnu og forgangsröðun verkefna og áherslur o.s.frv. Viðeigandi stjórnvöld hafa þá sett fram þessa forgangsröðun og áherslur á hverjum tíma.

Það er ekkert vikið að því í frumvarpinu með hvaða hætti þessar áætlanir eiga að spila saman, hvort að þær eigi að víkja í einhverjum skilningi eða fléttast inn í. Hver er staða svæðisráða Vatnajökulsþjóðgarðs til að mynda frammi fyrir þessu samráði um innviði til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum sem ætti að fara í gang samkvæmt frumvarpinu?

Í umsögn frá Vatnajökulsþjóðgarði um málið á síðasta þingi þá er þetta ósamræmi milli áætlana tekið saman á mjög skýran hátt með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

„Ekki er ljóst hver staða þriggja ára framkvæmdaáætlunar er gagnvart þeim stofnunum sem nú forgangsraða sjálfar framkvæmdum á ferðamannastöðum í opinberri eigu, þ.e. Vatnajökulsþjóðgarði, Umhverfisstofnun, Þjóðgarðinum á Þingvöllum, Skógræktinni og Landgræðslunni.“

Það eru fleiri stofnanir ríkisins sem hafa með höndum rekstur og utanumhald einstakra svæða en hér hafa verið taldar upp, þ.e. þjóðgarðarnir og Umhverfisstofnun, en sum svæði eru á snærum Skógræktar ríkisins og Landgræðslunnar. Þar er auðvitað yfirstjórn og forstöðumenn, skógræktarstjóri og landgræðslustjóri o.s.frv. sem forgangsraða sínum svæðum á grundvelli fjárhags síns.

Þá má benda á að í mjög mörgum umsögnum með þessu máli er lýst áhyggjum yfir því að fjármögnun verkefnanna sé óskýr og lögð áhersla á mikilvægi þess að fjármögnunin sé skýr áður en farið er af stað. Við tökum heils hugar undir þetta, ekki síst í ljósi þess að nú hafa áform iðnaðar- og viðskiptaráðherra um náttúrupassa runnið út í sandinn án þess að samstaða hafi náðst um neina aðra fjármögnunarleið. Ef marka má viðtal við hæstv. ráðherra í Kastljósi í gærkvöldi hefur hæstv. ráðherra lagt þetta verkefni algjörlega á hilluna, hefur bara lagt það til hliðar og telur það ekki vera á dagskrá ráðuneytis síns. Úr því að þessi leið varð afvelta hér með sögulegum hætti telur ráðherrann að hún þurfi ekki að sinna því verkefni frekar sem er náttúrlega mjög óvenjuleg nálgun þess ráðherra sem utan um málaflokkinn heldur.

Við ræddum það nokkuð í 1. umr. þessa máls að til væru þó nokkrar áætlanir sem Alþingi hefði samþykkt og lagt fram en vandi þeirra væri fyrst og fremst skortur á fjármagni. Sumar áætlanir eru svo illa settar að þær hafa ekki einu sinni komið fyrir þingið þó að lögboðið sé að leggja þær fram. Þar má fyrst fræga telja samgönguáætlun sem er ekki enn þá komin. Það væri kannski stærsta einstaka verkefnið í þágu innviðauppbyggingar fyrir ferðaþjónustu á Íslandi að koma einfaldlega fram með myndarlega samgönguáætlun og leggja til hennar fé, bæði í nýframkvæmdir í vegagerð en ekki síður í viðhald vegakerfisins. Innviðir vegakerfisins eru löngu sprungnir og álagið sem hefur hlotist af aukinni umferð ferðamanna er slíkt að það kallar á miklu öflugra og stöðugra viðhald en við sinnum núna.

Það að þetta mál, frumvarp um landsáætlun um uppbyggingu innviða, skuli ekki fjalla um samgöngumál með neinum hætti lýsir því mjög vel að það er í raun og veru sett fram í tómarúmi.

Eins og hér hefur komið fram bólar ekki neitt á breyttum hugmyndum hæstv. iðnaðarráðherra og hún bendir jafnvel á aðra ráðherra þegar rætt er um þann vanda sem upp er kominn og telur að það sé á verksviði fjármálaráðherra að fjalla um gistináttagjald og þá verksviði umhverfisráðherra að fjalla um þjóðgarða og friðlýst svæði (Gripið fram í: Og Reynisfjöru. ) og Reynisfjöru. Það er vandséð að mikið sé orðið eftir á verkefnalista hæstv. ráðherra því að ekki kemur þetta henni við eins og málin standa akkúrat núna.

Einskiptisframlag er auðvitað það sem við sáum á síðasta þingi. Þá kom myndarlegt framlag til uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum og jafnframt til afmarkaðra og skilgreindra samgönguverkefna í fjáraukalögum. Nú lítur út fyrir það, virðulegi forseti, við erum farin vonandi að nálgast vordaga, að við sjáum sambærilegar tillögur í sumar, þ.e. tillögur um einskiptisframlag í þágu uppbyggingar á ferðamannastöðum og einskiptisframlag fyrir tiltekna og skilgreinda vegbúta um landið.

Að því er varðar samgönguáætlun er staðan óboðleg. Við, þ.e. löggjafinn, höfum fyrir margt löngu komið okkur saman um með hvaða hætti samgönguáætlun á að koma til þingsins og ráðherranum, framkvæmdarvaldinu, ber að koma þessu plaggi til þinglegrar meðferðar. Það er náttúrlega forkastanlegt að það skuli ekki gerast heldur telji ráðherrann sér sæmandi að koma fram með lista af einhverjum fjórum eða sex vegaspottum sem eru fjármagnaðir eftir öðrum leiðum en samgönguáætlun segir til um, þ.e. í gegnum samgönguráð.

Einskiptisframlag leysir ekki þann vanda sem kominn er upp og er í raun og veru skortur á langtímastefnumörkun þar sem fjármagn er tryggt innan ramma viðkomandi stofnana og í þá sjóði sem með málin fara. Svona einskiptisframlagaleið er auðvitað ákveðin leið sem tekur úr sambandi alla eðlilega stjórnsýslu og eðlilega úrvinnslu mála þar sem einhvers konar pólitískur geðþótti veldur því að ein leið er farin frekar en önnur en ekki beitt þeim aðferðum sem við höfum komið okkur saman um, löggjafinn, á grundvelli lýðræðislegra leiða.

Stefnumörkun er markmið þessa frumvarps og það er nauðsynlegt að fjármagn verði tryggt til lengri tíma. Það má velta fyrir sér hver staða þessara laga verður ef staða laga um samgönguáætlun er ekki sterkari en raun ber vitni. Ferðaþjónustan leggur auðvitað til umtalsverðar fjárhæðir nú þegar í ríkissjóð, fjárhæðir sem fara vaxandi. En með hvaða hætti þeir peningar eru síðan eyrnamerktir uppbyggingu innviða er óútfært.

Í ljósi þess sem hér hefur verið talið upp telur 2. minni hluti að hætta sé á því að kerfið sé orðið of flókið að því er varðar verkferla. Hér sé bara verið að setja nýtt lag yfir þetta allt saman, samráð og ákvarðanatöku. Við þekkjum það sem höfum verið framkvæmdarvaldsmegin að það er gríðarlega mikið um mismunandi samráðshópa og stundum er engu líkara en fólk þurfi meira og minna að teppaleggja dagatal sitt með samráði við sama fólkið undir mismunandi yfirskriftum. Hér er verið að kalla til samráðs með því fólki sem er meira og minna að tala saman hvort sem er.

Að okkar mati er þörf á heildarskipulagi og framtíðarsýn fyrir málaflokkinn, en þessi málaflokkur er svo blautur á bak við eyrun og við erum í raun og veru svo vanbúin til þess að takast á við hann að svona verkefni kallar á þverpólitískt samráð. Þetta kallar á þá nálgun sem er viðhöfð varðandi frumvarp til nýrra útlendingalaga þar sem kallaðir eru til fulltrúar allra þingflokka. Vonandi sjáum við það frumvarp koma hér til þingsins þótt ég sé orðin nokkuð langeyg eftir því.

Hér erum við að tala um atvinnugrein sem tekur sífellt meira rými eftir því sem árin líða og það eru tugprósenta aukning milli ára í þessari atvinnugrein, hvernig sem litið er á, hvort sem litið er til fjölda ferðamanna eða til þess fjármagns sem kemur inn í hagkerfið með einhverju móti. Þegar svona stórir þættir í samfélaginu eru undir er ekki mikill bragur á því að ætla sér að nálgast það með svona klaufalegum hætti bak við luktar dyr í einhverjum ráðuneytum og svona frumvörpum. Við erum jafnframt að tala um grundvallarbreytingu á uppbyggingu íslensks atvinnulífs. Þar þurfum við stefnumörkun sem lifir af kosningar og breytingar á meiri hluta á Alþingi og á ekki að vera undirseld einhvers konar kúvendingum eða sviptingum.

Það er komið að ögurstundu varðandi nokkra fjölsótta ferðamannastaði. Skemmst er að minnast stöðu mála í Reynisfjöru og fleiri slíkum stöðum. Fjöldinn eykst ár frá ári og ágangurinn eykst að sama skapi. Auk þess er greinilega komið svo að öryggi ferðamanna á Íslandi er stefnt í hættu. Það er þörf bæði á bráðaaðgerðum og sýn til lengri tíma til þess að vernda þessa staði, þjóðgarða og friðlýst svæði, ekki bara á forsendum ferðaþjónustunnar heldur ekki síður, og það er auðvitað grunntónninn í máli hæstv. ráðherra, á forsendum náttúrunnar sjálfrar og náttúruverndarinnar. Um leið og svæðin tapa verndargildi sínu þá tapa þau aðdráttaraflinu og þar með er orðið stutt í að orðsporið, sem er í raun og veru það eina sem er á að byggja, bíði hnekki.

Það verður að segjast eins og er að það eru mikil vonbrigði að ekki skuli horft heildstætt á málaflokkinn. Við eyddum töluverðum kröftum og tíma í að fjalla um málið á síðasta þingi og reyndum að freista þess að ná sameiginlegum tóni. Við sendum málið aftur til ráðuneytisins. Ráðuneytið vann málið lítið milli þinga og mér finnst eins og meiri hlutinn hafi hreinlega ekki haft döngun í sér til þess að setja tíma og vinnu í að setja saman burðugra mál.

Við höfum sýnt það, umhverfis- og samgöngunefnd, að við höfum getað unnið í stórum málum og fært þau til betri vegar með því að eyða í þau vinnu eins og var með ný náttúruverndarlög. Það tók tíma og það voru fundir á tímum sem maður hefði gjarnan viljað vera annars staðar. En það skilaði sér í löggjöf sem við vorum sammála um að væri til framfara. Það er mitt mat og okkar í 2. minni hluta að vinna þyrfti þetta mál betur til þess að styrkja verkferlana svo að þessi verðugu og góðu markmið náist betur.

Í ljósi þess sem framan er greint teljum við, 2. minni hluti, að málið sé ekki fullbúið og ekki ljóst hvernig það mun vinna með annarri löggjöf og áætlunum. Við hefðum viljað sjá betri vinnu nefndarinnar og að við hefðum, nefndin í heild, tekið þann tíma sem þyrfti til að samþætta þessa löggjöf við fyrrgreinda þætti. Við munum því ekki taka þátt í afgreiðslu málsins.

Undir þetta nefndarálit ritar sú sem hér stendur, hv. þm. Róbert Marshall og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir.