145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

stefna um nýfjárfestingar.

372. mál
[20:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er að reyna að ná utan um skoðanir hv. þingmanns sem telur sig vera hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn þegar kemur að því að skapa góð skattaleg skilyrði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þó auðvitað í þessari ríkisstjórn sýnt að hann vinnur mjög í þá átt.

Það hefur til dæmis verið mjög mikilvægt fyrir alla verslun og þjónustu í landinu að fella hér niður öll vörugjöld og flesta tolla, svo dæmi sé tekið. Og að standa fyrir samningum sem landbúnaðarráðherra hefur gert við Evrópusambandið um aukinn aðgang að mörkuðum fyrir matvælaframleiðslu landsins, svo eitthvað sé nefnt.

Ég vil aðeins taka umræðu við hv. þingmann sem féll enn og aftur í þá gryfju sem ég var að reyna að vara við í ræðu minni áðan, að rangtúlka málin þegar kemur að umræðu um orkutengdan iðnað. Hún talaði ítrekað um orkufrekan iðnað.

Í nefndaráliti meiri hlutans er skýrt tekið á þessu. Við gerum einmitt þetta að sérstöku umtalsefni, virðulegur forseti, hversu mikilvægt það er að gera greinarmun á orkufrekum iðnaði og orkutengdum iðnaði. Við drögum mörkin einhvers staðar á 5–50 megavöttum, auðvitað eru þau matskennd. En í hinum tilfellunum erum við að tala um eitthvað sem er þá stærra en það, sem er þá orðinn orkufrekur iðnaður.

Ég vil fá hv. þingmann til að svara mér því hvort hún skilur þetta ekki á sama hátt og meiri hluti nefndarinnar, að við leggjum alls ekki áherslu á orkufrekan iðnað. Við leggjum (Forseti hringir.) áherslu á allt hitt, þekkingariðnaðinn, nýsköpunina, afleiddar greinar út úr grunnatvinnugreinum okkar. En allt þarf þetta orku og verður þar með orkutengdur iðnaður.