145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

aðkoma forsætisráðherra að samningum um slitabú föllnu bankanna.

[10:58]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Þær fregnir sem bárust nú í þessari viku varðandi eign og kröfu eiginkonu hæstv. forsætisráðherra komu á frekar óheppilegum tíma þar sem við erum að klára allt það sem kemur að slitum föllnu bankanna. Núna erum við að fara að samþykkja í dag mál nr. 420 sem er mögulega lokahnykkurinn í því hvernig eigi að ráðstafa þessum eignum og hvernig það mun allt saman fara. Ég óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með að það hafi komist í gegnum þingið.

Það sem mig langar til að fá að vita og held að sé mjög mikilvægt að komi fram er að hvaða leyti hæstv. forsætisráðherra var við samningaborðið þegar verið var að semja við slitabúin. Var hann beggja vegna borðsins? Eða kom hann kannski ekkert að þessu máli?

Í öðru lagi langar mig til þess að fá að vita hvort það hafi verið einhverjir fleiri ráðherrar eða þingmenn eða aðilar innan ráðuneytisins sem mögulega hafi haft einhverra hagsmuna að gæta þegar kom að slitabúunum og hvort viðeigandi ráðstafanir hafi verið gerðar.