145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Staða ríkisstjórnar Íslands er mjög erfið þessa dagana. Í þessari viku hefur komið fram að forsætisráðherra hefur haldið mikilvægum upplýsingum leyndum, ekki bara fyrir þjóðinni heldur samstarfsflokknum líka. Það hefur líka komið fram að fjármálaráðherra telur að forsætisráðherra þurfi sjálfur að gera grein fyrir þessum málum.

Þær spurningar sem hér standa eftir eru hvernig ríkisstjórnarflokkarnir ætli á þessu þingi að skapa lágmarkstrúverðugleika. Hver er stefnan í einstökum stórum málaflokkum, húsnæðismálum, málefnum búvörusamnings, málefnum Landspítalans, heilbrigðisþjónustunnar, stöðu Landsbankans, gjaldtöku af ferðamönnum, fæðingarorlofsmálum o.s.frv.? Hver er stefnan að því er varðar skráningu hagsmuna og virðingu fyrir óskrifuðum og skrifuðum siðareglum?

Samskiptaleysi stjórnarflokkanna kemur þjóðinni við. Forsætisráðherra telur sér sæma að samstarfsflokkurinn fái upplýsingar um stór mál á Facebook-síðum og í fréttatilkynningum. Pólitískt rugl og tvöföld skilaboð eru ekki traustvekjandi. Fjármálaráðherra getur ekki látið duga að benda á síðustu ríkisstjórn eða vísað í hagtölur um að hér sé allt í lagi þegar við blasir að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna eiga ekki í lágmarkssamskiptum um stór mál.

Staðan er á ábyrgð beggja flokka. Hún er í boði Sjálfstæðisflokksins ekki síður en Framsóknarflokks. Trúverðugleiki beggja flokka er undir.

Það er ekki að furða, virðulegi forseti, þótt ákallið um kosningar og nýja aðkomu þjóðarinnar verði sífellt háværara. Það ákall kemur ekki bara fram í röðum stjórnarandstöðunnar heldur er farið að bera á slíkum röddum hjá lykilfólki úr ranni stjórnarflokkanna sjálfra og hjá almenningi um allt land.

Staða ríkisstjórnarinnar er óboðleg. Nú er mál að linni.


Tengd mál