145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:16]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég tek undir með félögum mínum sem hafa lýst óánægju með að þessi fundur hafi ekki hafist á skýrslu frá hæstv. forsætisráðherra um þá fordæmalausu stöðu sem við erum í sem þjóð, þá fordæmalausu stöðu sem við erum í gagnvart umheiminum. Það er oft þannig að maður sér í raun og veru ekki sjálfan sig fyrr en maður horfir á sig í gegnum augu annarra og það var það sem við upplifðum í gær. Íslenska þjóðin upplifði að hún varð til háðungar í gegnum hæstv. forsætisráðherra lýðveldisins. Ég verð að segja að það er mér til mikilla vonbrigða að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki nú þegar lýst því yfir að hann hyggist segja af sér.