145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

upplýsingar og skilgreining á skattaskjólum.

[16:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Ísland hrundi vegna pólitískrar og fjármálalegrar spillingar. Þá bundumst við samtökum um það að stjórnmálamenn skyldu upplýsa um hagsmuni sína. Hæstv. forsætisráðherra átti 50% hlut í Wintris þegar hagsmunaskráning hafði tekið gildi hér í þinginu. Það er ekki verðlaust. Það eru gríðarlegir hagsmunir. Það er enginn bragur að því að skýla sér bak við konu sína. Auðæfi fjölskyldunnar eru veruleg. Ég spyr forsætisráðherra: Hvernig getur hann staðið í þessum stól og sagt að leynd sé upplýsingar? Að það að leyna upplýsingum sé að upplýsa fólk? Ég hlýt líka að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Ætlar hann í alvörunni að standa í þessum ræðustól og segja við heiminn að Tortóla sé ekki skattaskjól?

Virðulegur forseti. Allir sem eru á Tortólu geta sagt að þeir hafi skilað sköttum af því sem þeir eiga þar vegna þess að engin leið er að ganga úr skugga um að það hafi verið gert. Þess vegna er það skattaskjól. Ríkisskattstjóri Íslands úrskurðaði að Tortóla væri skattaskjól árið 2010. Hvernig getur forsætisráðherra sagt að alþjóðlegt skattaskjól, Tortóla, sé ekki skattaskjól? Ætlar forsætisráðherra líka í þessu efni að halda því blákalt fram eftir allt sem á undan er gengið að hvítt sé svart, að svart sé hvítt? Að Tortóla sé ekki skattaskjól og það að leyna upplýsingum sé að veita eðlilegar upplýsingar? Mig varðar ekkert um það í hvaða formsatriði forsætisráðherra kýs að hengja sig. Allir sjá að hér voru verulegir hagsmunir annars vegar.

Ég hlýt líka að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hefur hann aldrei séð eftir því að hafa ekki upplýst um þetta? Hefur aldrei hvarflað að honum að stíga bara fram og biðjast afsökunar (Forseti hringir.) og gera grein fyrir þessari stöðu? Ég spyr og ég held að margir fleiri spyrji þess hins sama.