145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

siðareglur ráðherra.

[11:23]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Mér fannst hv. þingmaður rangtúlka orð mín. Ég sagði að það væru lög og reglur sem allir þyrftu að fylgja. Því til viðbótar værum við sem erum kjörnir fulltrúar, hvort sem við sitjum á Alþingi eða í sveitarstjórnum eða annars staðar, með hagsmunaskráningu og siðareglur. Það er augljóst að við þurfum að fara yfir þau mál vegna þess að á síðustu dögum hefur komið í ljós frá miklu fleira fólki en hv. þingmaður nefndi sem og fjölmiðlum að menn mistúlka þessar reglur með ýmsum hætti, halda að þar standi eitthvað annað. Það er eins og með hagsmunaskráninguna á Alþingi. Hún er ekki nægilega skýr. Það er ekki mikil greinargerð með henni, enda er hún sett upp sem viðmið og menn verða síðan að eiga við sína samvisku hvernig þeir upplýsa um það. En það er eðlilegt að við förum yfir þær. Það er fullkomlega eðlilegt. Og það er ekki aðeins eðlilegt, það er nauðsynlegt og einn liður í því að sýna að okkur er sá vandi á höndum að byggja upp að nýju (Forseti hringir.) traust til stjórnmála, stjórnmálamanna eftir það áfall sem hér hefur riðið yfir.