145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

verkefni ríkisstjórnarinnar.

[11:32]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þó að eitthvað sé ekki ólöglegt þá er það ekki endilega réttlætanlegt. Mér þótti miður að heyra hæstv. ráðherra tala áðan með þeim hætti að hægt væri að réttlæta ákveðna hluti sem hafa valdið því rofi á trausti sem við erum að horfa upp á og hefur valdið því líka að við höfum verið á forsíðum heimsblaðanna og heimsfjölmiðlanna á undanförnum dögum. Við erum sér á parti. Það virðist vera þannig að á Íslandi hafa menn talið það eðlilegt og einhvern veginn réttlætanlegt að farið væri með fé í skattaskjól ef, eins og fram hefur komið í ræðum þessara ágætu ráðamanna, menn hafa sína hluti á hreinu og eru ekki að svíkja undan skatti. En hver ætlar að sýna okkur fram á það? Sönnunarbyrðin liggur alfarið hjá þeim sem fara með fé í skattaskjól, að sýna okkur fram á að svo hafi ekki verið. Þess vegna er það aldrei réttlætanlegt, ekki undir neinum kringumstæðum, að fara með fé í skattaskjól.

Þá verð ég líka að segja að krafan um kosningar strax er eðlileg í ljósi þess trúnaðarrofs sem orðið hefur og þess siðrofs sem orðið hefur í samfélagi okkar. Það er eðlilegt að hæstv. ríkisstjórn staldri aðeins við að nýju og svari þeirri kröfu með einföldu jái. Það er ekki boðlegt að bera fram að það séu svo mikil og stór mál sem menn þurfi að ráðast í áður en við getum gengið til kosninga. Menn eru enn þá að keyra sama prógrammið, afnám hafta eins og fráfarandi ríkisstjórn lagði upp með, og það eru ekki deilur um það. Það eru ekki deilur um heilbrigðismálin. Það geta allir flokkar farið í vinnu hvað varðar heilbrigðismálin.

Það eina sem ég sé að standi eftir hjá þessari ríkisstjórn að vinna með og við gætum ekki hjálpað þeim við eru búvörusamningar. Ætla menn í alvörunni að búa til starfsstjórn um búvörusamninga? Er það það sem þetta gengur út á? (Forseti hringir.) Það hefur enginn beðist afsökunar á gjörðum sínum í þessu máli, ekki einn einasti maður. (Forseti hringir.) Það eina sem hefur gerst er að menn hafa skipst á stólum.