145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

afstaða ráðherra til skattaskjóla og afsökunarbeiðni.

[12:12]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið afar áhugaverður fyrirspurnatími á ögurstundu í íslenskum stjórnmálum og fyrir þjóðina alla. Það sem gerðist hér var sitthvað en það sem var kannski mest áberandi og mest til umhugsunar er það sem gerðist ekki, þ.e. að forusta ríkisstjórnarinnar, hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson og hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, sá enga ástæðu til að biðjast afsökunar á þeirri stöðu sem upp er komin, að biðja þingið afsökunar, að biðja þjóðina afsökunar á þeirri stöðu sem upp er komin og er fordæmalaus. Íslensk þjóð hefur dregist ofan í svelg siðleysis þeirra ríkisstjórnarflokka og það er á ábyrgð forustu ríkisstjórnarinnar að tala til þjóðarinnar á slíkri stundu. En hvað gerist þá? Hér er ríkisstjórnin með slíka forustu að hún ætlar að fara að útskýra það fyrir stjórnarandstöðunni, fyrir alheimspressunni, fyrir öllum í veröldinni að þetta sé allt saman á misskilningi byggt (Forseti hringir.) af því að einhverjir hafi borgað skatta og skyldur, af því að vandinn sé ekki sá að pólitísk forusta á Íslandi er með nöfnin sín í skattaskjólum.

Virðulegur forseti. Það er ekki einn einasti þýskur stjórnmálamaður á þessum pappírum. Af hverju ekki? Það er vegna þess að fólk úti í Evrópu skilur þennan mun. (Gripið fram í: Já.) Þetta er átakanleg staða sem íslensk stjórnmál eru stödd í.