145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[13:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er harla óvanalegt að ríkisstjórn með nýjan forsætisráðherra standi frammi fyrir vantrauststillögu skömmu eftir að stefnuræða forsætisráðherra hefur átt sér stað en allt er það rétt sem fram kom í máli hv. þm. Árna Páls Árnasonar að þetta eru óvanalegir tíma.

Mig langar til að byrja á því að segja að hér er réttur tónn sleginn, finnst mér, hvað það snertir að við eigum að hugleiða hversu vel okkur hefur tekist að vinna úr vantraustinu frá árinu 2009. (Gripið fram í: Svona líka.) Við eigum líka að hugleiða hversu miklu það hefur skilað að ganga ítrekað til kosninga. Ég leyfi mér að benda á þá ótrúlega miklu endurnýjun sem hefur orðið hér í þingsalnum, á stóraukinn hlut kvenna — í ríkisstjórninni er jafnt hlutfall karla og kvenna, má ég koma því að — og hvers vegna það eitt og sér hefur ekki skilað okkur lengra en raun ber vitni. Getur verið að það sé það hvernig við tökumst á um mál? Getur verið að það sé það hvernig við reynum að leiða fram, eftir reglum þingskapa, niðurstöðu í málum? Getur verið að það eigi sér einhverjar rætur í því að hér er meiri hlutinn stundum ekki virtur, þ.e. vilji hans nær ekki fram að ganga vegna þess að það er ætlun minni hlutans að stöðva það? Ég get alveg sagt eins og er að við höfum beitt okkar ýtrasta í minni hluta, sjálfstæðismenn, til þess að koma í veg fyrir hluti sem við höfum talið vera skaðlega. (Gripið fram í.) Ég hef í þeirri umræðu komist að þeirri niðurstöðu fyrir mitt leyti, og ég hef talað um þetta áður, að reglurnar sem við búum við til þess að leiða fram niðurstöðu um ágreiningsmál hér á þinginu séu ófullkomnar. (Gripið fram í.) Mín skoðun er sú og ég hef ekki séð neina aðra leið betri en að færa forseta Alþingis meiri völd til þess að höggva á hnútinn. Vegna þess að þingmenn hafa ekki getað gert það sjálfir. Það þarf líka að horfast í augu við það að reglurnar einar og sér munu ekki leysa þann vanda, heldur verður hér að byggjast upp samstaða um að virða breytt verklag.

Hvers vegna er ég að fara yfir þessa hluti? Vegna þess að ég tel að þeir eigi erindi inn í þessa umræðu og ég held að það sé rétt hjá þeim sem hafa talað hér á undan mér að koma aðeins inn á þennan þátt.

Og þá að því máli sem hefur orðið tilefni til mikilla breytinga í þessari viku, orðið til þess að hér er komin til starfa ný ríkisstjórn sömu flokka og það ástand hefur skapast sem við þekkjum, mótmæli, neikvæð umræða um Ísland, um íslensk stjórnmál o.s.frv. Ég er að nefna þetta í aðdraganda þess að ég kem inn á það, vegna þess að við erum í einni slíkri umræðu einmitt núna. Ef við erum sammála um að okkur hafi ekki tekist vel að leysa úr stórum ágreiningsmálum fram til þessa þá erum við með eitt stórt ágreiningsmál í höndunum. Og þá skulu menn líta í spegilinn og spyrja: Hvað getum við gert til þess að leiða fram niðurstöðu? Ég sé að nú horfa menn til mín og segja: Þetta er einfalt, sá sem talar núna þarf einfaldlega að víkja. En við höfum hlustað. Það gerist ekki fyrir tilviljun að forsætisráðherra ákveður að stíga til hliðar. Það gerist ekki fyrir tilviljun að stjórnarflokkar hér, með vel ríflegan meiri hluta, ákveða að stytta kjörtímabilið. Það er verið að hlusta eftir því að virkja lýðræðið. En á sama tíma erum við þeirrar skoðunar að það sé í þjóðarhag að þetta þing skolist ekki bara niður í ræsið — málunum öllum hent í ruslafötuna. Allt það starf sem þeir sem eru hér inni hafa unnið, öll samskiptin við alla hagsmunaaðila, öll vinnan í stjórnkerfinu, öll þau stefnumál sem liggja fyrir verða að fá afgreiðslu. Þegar því er lokið, og nú kalla menn fram og segja: Verða það að vera öll málin? Nei, nei, við getum alveg rætt saman hér, stjórn og stjórnarandstaða, eins og ávallt á við um það hversu langt eigi að ganga niður þann lista. En mönnum ætti ekki að dyljast hver eru helstu áherslumál þessarar stjórnar. Það gerðist nú ekki svo mikið í vikunni milli stjórnarflokkanna að menn séu komnir fram með nýjan stjórnarsáttmála á allt öðrum grunni. Þetta er sami grunnurinn. Þetta eru sömu stóru stefnumálin. Við bendum á árangurinn sem stefnan hefur skilað fyrir landsmenn og mun gera áfram á grundvelli þeirra mála sem liggja fyrir.

Ég leyfi mér að nefna hér líka að þetta eru ekki allt bara einhver hugðarefni stjórnarflokkanna í sjálfu sér. Við erum líka með mál fyrir þinginu sem eru unnin í samstarfi við vinnumarkaðinn svo að dæmi sé tekið. Eitt mál sem komið er að að leggja fram er ný ríkisfjármálaáætlun til fimm ára. Getum við farið að hugsa til lengri tíma? Getum við gert það hér í þinginu? Ég tel að það skipti miklu máli. Ég tel að það skipti miklu máli að þetta þing fái þá fimm ára ríkisfjármálaáætlun og taki hana til umfjöllunar og afgreiðslu. Ég geri mér á sama tíma grein fyrir því að það mun koma ný ríkisfjármálastefna þegar ný ríkisstjórn tekur við og að við munum endurskoða ríkisfjármálaáætlunina á hverju ári, ég geri mér grein fyrir því. En mér finnst þetta samt skipta máli. Menn geta svo sem haft hver sína skoðun á því .

Það er sanngjörn og eðlileg krafa hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur að við tölum efnislega líka um málið. Ég skil vel þegar sagt er: Þið talið bara um málin sem þið eruð búin að leggja fram en hvað ætlið þið að gera í þessu nýja máli? Við skulum bara ræða það hér. Að sjálfsögðu kemur til álita að taka sérstaka skýrsluumræðu, setja skoðun á þeim málum í einhvern sérstakan farveg hér í þinginu. En ég vek í því sambandi athygli á því að þegar á sínum tíma lá fyrir að ríkisskattstjóra stæði til boða að kaupa gögn sem mér skilst að séu svipuð þeim gögnum sem eru í þessum stóra leka, hver fékk þá hugmyndina um að þingið ætti að skoða þau gögn? Hver fékk þá hugmyndina um að nú skyldum við halda fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og taka gögnin til skoðunar? Nei, við treystum stofnunum stjórnsýslunnar til að taka málið til skoðunar. Það hljótum við líka að gera í þessu máli. Við hljótum að treysta þeim stofnunum sem komið hefur verið á fót með lögum til að skoða mál af þessum toga, hvort sem heitir ríkisskattstjóri, skattrannsóknarstjóri eða aðrir annars staðar í stjórnsýslunni sem, svo það fari ekki á milli mála, eru að fylgjast með umræðunni og hafa gögn og munu eflaust fá frekari gögn. Síðast sá ég það í dag að ríkisskattstjóri hefði brugðist við og beinlínis krafist þess að fá öll gögnin afhent. Treystir þingið þessum stofnunum til að vinna þetta verk? Eða erum við kannski ekki einu sinni sammála um hvert verkefnið er? Ég hef verið mjög hreinskilinn með það að mér finnst verkefnið vera að ná í skottið á svikurunum, ná í skottið á þeim sem ætluðu ekki að skila sínum sanngjarna hlut.

Mín mál hafa verið í umræðunni. Ég hef sagt fyrir mitt leyti: Ég naut aldrei nokkurs ávinnings af þessu máli. Ég gaf mína hluti upp. Ég sýndi gegnsæi og hef ekki neitt að fela. Ekki neitt að fela. En það eru hins vegar margir til sem nýttu sér félög í þeim tilgangi að fela sig eða komast undan skattlagningu yfir höfuð. Við þurfum að sammælast um það að gera allt sem við getum til að hafa upp á þeim. Svo er eðlilegt að íslenskur almenningur, allir þeir sem horfa hér til þingsins, spyrji sig: En eru þá enn þá svona mikil göt í löggjöfinni að við ráðum ekkert við þetta fyrirbæri? Ráðum við ekkert við þetta fyrirbæri? Því er til að svara að við höfum á undanförnum árum, saman, enginn ágreiningur verið um það hér, gert miklar breytingar. Við höfum tekið upp staðla OECD sem tryggja sjálfvirk upplýsingaskipti. Og það sem meira er, Ísland er meðal þjóða sem ætla að vera með skjóta innleiðingu þeirra reglna. Það eru tiltölulega fá OECD-ríki sem ætla að flýta innleiðingu reglnanna til þess að tryggja upplýsingaskipti um skattaupplýsingar. Við höfum líka nýlega undirritað 44 upplýsingaskiptasamninga við lágskattasvæði og lágskattalönd. Þannig að ef einhverjar vísbendingar eru uppi hjá íslenskum skattyfirvöldum um að ekki hafi verið greint frá öllu eigum við, á grundvelli þessara 44 nýju samninga, rétt til að fá frekari upplýsingar. CFC-löggjöfin hefur líka skipt miklu máli. Þeir sem stóðu að henni mega fá allt kredit sem þeir vilja fyrir það. Niðurstaðan af þeirri löggjöf er sú að ávinningnum af því að nýta sér þessi svæði hefur að langmestu leyti verið eytt. Það er því búið að takast á við þessi tvö meginvandamál, annars vegar leyndina, með upplýsingaskiptasamningum, og hins vegar við skattleysið, með CFC-reglunum.

Við erum búin að takast á við meginvandann nú þegar með samningum og löggjöf. Þetta liggur fyrir. Þarf að halda áfram? Já, það þarf að halda áfram. Þarf að tryggja að skattrannsóknarstjóri og aðrir þeir sem sinna eftirliti á þessu sviði hafi fjármagn og burði, stuðning til alþjóðlegs samstarfs o.s.frv.? Já. Og við munum þurfa að nota þennan stóra leka til þess að spyrja okkur spurninga um hvort nóg hafi verið að gert. Til þess höfum við sérfræðinga í stjórnsýslunni sem geta brugðist við. Ég er jafnframt sannfærður um að þetta stóra mál mun hafa áhrif til enn frekari breytinga, til enn stærri skrefa í þá átt að koma í veg fyrir þann vanda sem þessi félög hafa skapað sérstaklega. Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér af fullu afli í þeim tilgangi.

Ég hóf þennan kafla ræðu minnar á að spyrja: Erum við sammála um að þetta sé verkefnið? Það þarf ekkert að vera. En við getum byrjað að ræða þennan hluta málsins. Í dag segja menn hér: Ríkisstjórnin þarf að fara frá og það þarf að boða til kosninga strax. Ég hef fært fyrir því rök að stjórnarmeirihlutinn hafi komist að annarri niðurstöðu. Og vitið þið hvað, það er ekkert óeðlilegt að menn séu ósáttir við það eða ósammála. Vegna þess að í þeirri stöðu sem hefur skapast er engin lausn hafin yfir gagnrýni. Það er ekkert einfalt að framkvæma lýðræðið. Menn hafa talað um það hér á hverju ári frá 2008 að við þurfum að gera það sem endurheimtir traustið. En þurfa ekki flestir flokkar að horfast í augu við það að það hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel? Það er engin ein lausn hafin yfir gagnrýni. Okkar svar við þeirri stöðu sem upp er komin hér er sú að veita skýringar, veita svör, veita upplýsingar, og við viljum beita lýðræðinu til að takast á við traustsvandann.

Mig langar til að koma því að hér, undir lok ræðu minnar, að ekki er ágreiningur um að það þurfi að virkja lýðræðið. Það er einungis ágreiningur um hvort það gerist í maí eða september eða október. Það er ágreiningur um það. Hinn ágreiningurinn sem er hefðbundinn milli stjórnar og stjórnarandstöðu, um að menn séu ekki með réttu áherslurnar o.s.frv., er bara hefðbundin störf Alþingis og hefur ekkert með þetta lekamál frá Panama að gera. Ekki neitt. Það eru bara hefðbundin íslensk stjórnmál.

Ég ætla þess vegna að ljúka máli mínu á því að taka fagnandi hugleiðingum um það hvað við getum gert, Alþingi, til að bregðast við þessari stöðu, hvort við getum fundið einhverja samnefnara sem geta fært meira traust til þingsins. Fæst okkar verða hér eftir tíu ár. En í millitíðinni getum við gert býsna margt. (Gripið fram í.) Það er bara reynslan. Sá maður sem er með mesta þingreynslu hér í þingsalnum getur jú vissulega sagt að það sé engin trygging fyrir því, enda sagði ég ekki að við yrðum öll farin. En ég ætla bara að ljúka máli mínu á því að benda á að við erum hér mislengi hvert og eitt. Eftir því sem maður er hér lengur, nú hef ég verið hér í rúman áratug, sér maður hversu miklu það skiptir að maður leggi þó sitt af mörkum til þess að styrkja þingið og bæta menninguna, reglurnar, það sem tengir þingið betur við fólkið í landinu.